149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

biðtími hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

[15:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Þessi spurning er mjög mikilvæg, ekki síst vegna þess að heyrnarskerðing er ósýnileg fötlun, ef svo má að orði komast. Það er erfitt að átta sig á því bæði fyrir einstakling sem er í vinnu eða skóla, eða hvað það er, hversu mikill vandi viðkomandi er á höndum ef hann glímir við heyrnarskerðingu. Það á ekki bara við aldraða heldur líka aðra sem glíma við hana.

En nú hafa sem betur fer orðið stórstígar framfarir í tækni hvað varðar þessi mál. Hv. þingmaður spyr sérstaklega um viðhald á heyrnartækjum. Ég hef fengið ábendingar og fyrirspurnir frá einstaklingum sem beðið hafa lengi, eins og hv. þingmaður nefnir hér. Ég kallaði þá eftir upplýsingum frá stofnuninni um hvort það væru einhver tiltekin viðmið í því hvernig ákvarðanir væru teknar um hvernig afgreiðslu væri háttað eftir erindum. Mér var tjáð að svo væri, að þar væru tiltekin viðmið sem farið væri eftir eins oft og hægt er. Vandinn hefur ekki bara verið tæknilegs eðlis heldur líka að því er varðar heyrnarfræðinga.

Við staðfestum fyrir einhverjum vikum að heyrnarfræðingar eru orðnir löggilt heilbrigðisstétt. Það skiptir miklu máli. En við þurfum að eiga fleiri heyrnarfræðinga á Íslandi. Við höfum ekki útskrifað heyrnarfræðinga um langt árabil en stofnunin hefur í raun, þrátt fyrir smæð sína, verið ótrúlega öflug í nýsköpun og þróun, t.d. í fjarheilbrigðisþjónustu sem lýtur m.a. að því að geta metið og mælt stöðu heyrnartækja yfir netið, úti um land, sem er mjög mikilvæg leið til að þjónusta fólk sem er með heyrnartæki frá Heyrnar- og talmeinastöð.

Það er mjög margt að gerast í þessari stofnun (Forseti hringir.) en það má örugglega gera enn þá betur.