149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

biðtími hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

[15:53]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágætt svar. Það er gott að hún er meðvituð um þennan langa biðtíma og hefur leitað svara í þeim efnum. Þetta er nokkuð sem við þurfum að bæta og ráðherra kom ágætlega inn á það. Ráðherra nefndi einnig landsbyggðina, þar er þessi þjónusta líka mjög mikilvæg og við þurfum að efla hana. Það þarf einnig að bæta stuðning við aðstandendur eins og sálfræði- og félagsþjónustu og auk þess er brýnt að auka fræðslu og rannsóknir, ekki síst vegna þess að sífellt fleira ungt fólk er með skerta heyrn vegna hávaða frá umhverfi og tónlist. Einnig þarf að auka rannsóknir á félagslegum áhrifum heyrnarskerðingar aldraðra og auka samvinnu við dvalarheimili og hjúkrunarheimili. Það er því margt sem þarf að bæta í starfsemi þessarar mikilvægu stöðvar. (Forseti hringir.) Hún stendur sig hins vegar vel, ég skal taka undir það, en ég vænti þess að ráðherra fylgi þessu eftir sem ég nefndi hér og treysti og trúi að hún geri það.