149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

biðtími hjá Heyrnar- og talmeinastöð Íslands.

[15:54]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Það er svo heppilegt að ég gat í millitíðinni nálgast upplýsingar úr ráðuneytinu sem eru aðeins skýrari. Biðlistar eru mislangir eftir þeirri þjónustu sem beðið er um. Ef það er einungis heyrnarmæling er enginn biðtími. Ef um er að ræða heyrnarmælingu og viðtal við lækni getur biðtími verið allt að einum mánuði. En heyrnarmæling, viðtal við lækni og endurnýjun á heyrnartæki sem krefst heyrnarfræðings getur kallað á enn þá lengri bið. Samkvæmt viðmiðum stofnunarinnar á sú bið ekki að vera lengri en sex mánuðir þó að við bæði, ég og hv. þingmaður, höfum heyrt dæmi um lengri bið.

Skortur á heyrnarfræðingum er kannski stærsta breytan þarna eins og ég nefndi, skortur á íslenskumælandi heyrnarfræðingum. Við höfum fengið heyrnarfræðinga utan frá, en eðli máls samkvæmt er mikilvægt að viðkomandi geti átt óhindruð samskipti við þann sem leitar þjónustunnar. Ung börn með heyrnarskerðingu eru sett í algjöran forgang, bara þannig að það sé alveg skýrt. Að öðru leyti forgangsraðar Heyrnar- og talmeinastöðin ekki eftir aldri, en miðar við það að sinna sérstaklega vel börnum sem enn eru á máltökuskeiði, (Forseti hringir.) ég tala nú ekki um þau sem kunna að nýta sér táknmál til viðbótar við tjáningu.