149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

skýrsla um peningastefnu.

[16:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Virðulegur forseti. Ég þarf kannski að byrja á því að biðjast afsökunar á því að geta ekki skilað hæstv. heilbrigðisráðherra fullu húsi af fyrirspurnum. Mér finnst ég vera að brjóta einhverja vinningslotu (Gripið fram í.) hjá ráðherra. [Kliður í þingsal.]

Í vor skilaði nefnd um peningastefnu mjög áhugaverðri skýrslu um þá valkosti sem reyndar eru innan þess þrönga stakks sem þeirri nefnd var sniðinn; hún sneri að mörgum álitaefnum um þá kosti sem við stöndum frammi fyrir þegar kemur að sjálfstæðri peningastefnu og þá sér í lagi peningastefnu miðað við íslenska krónu.

Skýrsla þessi er góðra gjalda verð og margt áhugavert sem þar kemur fram en ég sakna þess vissulega að umræða um hana hafi ekki verið meiri en raun ber vitni, kannski sér í lagi núna þegar við sjáum hversu brothætt okkar litla mynt er. Við sáum það skýrt á dögunum, þegar óttast var um fjármögnun á stóru flugfélagi, að krónan fór á fleygiferð og hún er reyndar farin af stað aftur í veikindafasa núna, sýnist mér, með tilheyrandi kostnaði fyrir almenning í landinu; verðbólguhorfur að versna, bankar hafa farið að boða hækkanir á óverðtryggðum lánum á undanförnum dögum vegna þessa. Það er alveg ljóst að þetta mikilvæga mál, sennilega eitt mikilvægasta mál sem snýr að fjárhag og velferð íslenskra heimila, þarf þingið að taka mun fastari tökum en gert hefur verið. Þess vegna höfum við í þingflokki Viðreisnar óskað eftir sérstakri umræðu um þessa ágætu skýrslu í þingsal en það verður að viðurkennast að okkur hefur gengið illa að fá svör um mögulega tímasetningu.

Þessi beiðni um sérstaka umræðu var lögð fram til hæstv. forsætisráðherra strax við þingsetningu. Mín fyrsta spurning til hæstv. forsætisráðherra er: Er ekki tímabært að ræða þessa ágætu skýrslu í þinginu?