149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

skýrsla um peningastefnu.

[16:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. þingmanni sérstaklega fyrir þessa fyrirspurn og að hann beindi henni til mín og ekki hæstv. heilbrigðisráðherra, eins ágæt og hún er, enda ágætt að hafa smádreifingu hér í skemmtuninni. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég ætla bara að byrja á að upplýsa hv. þingmann um að þetta er það fyrsta sem ég heyri um þessa beiðni um sérstaka umræðu. Ég er ávallt reiðubúin að mæta til sérstakra umræðna hér í þinginu og legg til að hv. þingmaður ræði við mig á eftir um tímasetningu slíkrar umræðu, sem ég vona að geti orðið sem fyrst, en af einhverjum orsökum hef ég ekki fengið þessa beiðni til mín frá skrifstofu þingsins.

Síðan vil ég segja um skýrsluna að ég er sammála hv. þingmanni að það er mikilvægt að við ræðum nákvæmlega þetta. Þessi mál bar aðeins á góma í einhverjum umræðum, ætli það hafi ekki verið um fjárlagafrumvarpið um daginn, og ég kallaði eftir því að við gæfum okkur tíma til að ræða niðurstöður skýrslunnar. Hv. þingmaður segir: Nefndinni var þröngur stakkur sniðinn. Það er rétt, í erindisbréfi nefndarinnar var talað um að það ætti að byggja á íslensku krónunni en hv. þingmaður var þá hæstv. ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem skipaði þessa nefnd og sneið þennan þrönga stakk sem hann gerir hér að umtalsefni.

Þar var sérstaklega fjallað um hugmyndir um myntráð sem hv. þingmaður hefur talað fyrir og komu fram mjög misvísandi, getum við sagt, tillögur um það. Einn af þeim erlendu ráðgjöfum sem skiluðu nefndinni skýrslu, Jonung, ef ég man rétt, sem var valinn sérstaklega til þessa verkefnis sem, getum við sagt, stuðningsmaður myntráðsfyrirkomulagsins, lagði það til en aðrir erlendir ráðgjafar mæltu gegn því. Ég held að það væri mjög gott fyrir þingið að fara í gegnum þá umræðu. Niðurstaða nefndarinnar íslensku var að mæla ekki með þessum kosti. Það er niðurstaða mín, enn sem komið er a.m.k., að valkostir Íslands í peningamálum séu annars vegar íslenska krónan með skýrari ramma utan um peningastefnuna eða þá að ganga inn í það bandalag (Forseti hringir.) sem væri nærtækast að ganga inn í sem væri Evrópusambandið og upptaka evru, en það er mun stærri spurning en svo að hún varði eingöngu peningastefnuna.