149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

skýrsla um peningastefnu.

[16:08]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Forseti. Svo allrar nákvæmni sé gætt þá mismælti ég mig í fyrri ræðu, beiðnin sneri að sérstakri umræðu um skýrslu en ekki um sérstaka umræðu, en við finnum út úr því. (Forsrh.: Já.)

Ég held einmitt að það sé mjög mikilvægt að taka þessa umræðu hér í þinginu því að spurningin sem snýr að óstöðugleika krónunnar og háu vaxtastigi hérna, sem við sjáum að er að ágerast enn eina ferðina, er auðvitað: Hvað ætlum við að gera í þessum grundvallarvanda? Hér í þessum þingsal er mjög oft talað um, ég myndi vilja kalla það bellibrögð eins og að banna verðtryggingu, að banna í raun og veru sjúkdómseinkennið á þeim óstöðugleika sem við búum við og fjölmargir flokkar hafa gengist upp í þeirri vitleysu. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir þingið að fá vandaða umræðu um þessa ágætu skýrslu.

Það er rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að ég var ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem markaði umgjörð þeirrar skýrslu og ekkert launungarmál að það var háð verulegum málamiðlunum milli flokka. En (Forseti hringir.) það er auðvitað orðið verulegt álitaefni þegar við sjáum núna óstöðugleika krónunnar láta á sér kræla að nýju og mikilvægt að við tökum vandaða umræðu (Forseti hringir.) um þetta mál í þingsal.