149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

skýrsla um peningastefnu.

[16:09]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Við finnum okkur tíma til þessarar umræðu sem ég er sammála hv. þingmanni um að á að vera meira á dýptina en svo að við náum því hér á örfáum mínútum. Ég vil þó segja að ég held að það sé margt í því fyrirkomulagi sem við erum með núna, þ.e. íslensku krónunni, sem við getum gert betur. Eitt af því sem hefur verið bent á er til að mynda kostnaður í hinu innlenda bankakerfi. Við höfum óskað eftir því að sú nefnd sem á að ljúka hér við vinnu hvítbókar geri atlögu að því að greina þann kostnað því að það liggur fyrir að hann virðist vera meiri hér á landi en annars staðar í löndunum í kringum okkur. Það er ekki eingöngu við gjaldmiðilinn að sakast, svo það sé sagt.

Við hljótum líka að horfa til þess sem nefndin leggur til sem er að fjármálastöðugleiki verði ríkari þáttur í stjórn peningastefnunnar. Ég held að það sé hárrétt ábending. Hins vegar er spurningin hvort fjármálastöðugleikamarkmið eigi þá að vera að yfirskipað verðbólgumarkmiði. Það er nokkuð sem við þurfum líka að ræða á vettvangi þingsins.

Ég hef boðað það að síðar í vetur komi fram frumvarp, eftir áramót, um breytingar á lögum um Seðlabankann sem varðar stjórnskipulag Seðlabankans. Það eru margar aðrar ákvarðanir sem lúta að peningastefnunni sem verða ekki settar í lög heldur (Forseti hringir.) snúast bara um mótun peningastefnunnar, sem ég tel að við eigum að gefa okkur tíma til að ræða. Ég legg því til að við hv. þingmaður greiðum úr þessari (Forseti hringir.) beiðni svo við getum tekið slíka umræðu á lengri tíma.