149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

óháð, fagleg, staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

14. mál
[16:27]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að bæta neinu öðru við en því að ég er alveg sammála málinu sem hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir var að flytja enda er ég meðflutningsmaður. Upplifun mín af þessu máli frá því að ég kom hér að, og fylgdist með fréttum þar áður, er að þetta hafi einhvern veginn moðast áfram án þess að í raun hafi verið skýr stefna í ansi mörg ár. Síðan er bara komið að því að það þurfi að taka einhverja ákvörðun og þá er hún tekin eins og raun ber vitni um.

Í þinginu hefur mikið verið vitnað í þingsályktun sem var samþykkt líklega 2015 um að þáverandi ríkisstjórn undir forsæti Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hefði ákveðið að þarna skyldi reisa nýtt þjóðarsjúkrahús. Þetta er ekki rétt vegna þess að segja má að orðalagið hefði mátt vera skýrara í greininni. Það var talað um uppbyggingu húsnæðis á lóðinni. Hugsunin á bak við það var sú að laga húsin sem voru fyrir en ekki að fara í nýframkvæmdir. Þetta hefur verið notað hérna trekk í trekk til að hamra á því að þetta hafi verið ákveðið í tíð ríkisstjórnarinnar sem sat hérna 2013–2016. Það vildi þannig til að ég var hér inni þá sem varaþingmaður og var meðflutningsmaður á þessari tillögu.

Í mínu höfði hefur alltaf verið frekar einfalt mál að finna nýju þjóðarsjúkrahúsi nýja lóð. Í þessari tillögu er talað um óháða, faglega aðkomu annars staðar og eins og kom fram í ræðu hv. þm. Gunnars Braga Sveinssonar áðan eigum við eftir að upplifa hávaða og ónæði, bæði fyrir sjúklinga og starfsfólk, um ókomna tíð meðan þessi framkvæmd er þarna í gangi. Það er ekki heilsubætandi fyrir sjúklingana, það er alveg á hreinu.

Ef það hefði verið farið í framkvæmdir annars staðar hefði þessi staður fengið að klára sinn tíma sem sjúkrahús á meðan nýtt sjúkrahús hefði verið byggt á öðrum stað. Það hefði ekki þurft að taka eins langan tíma og hamrað hefur verið á. Þess vegna finnst mér afar skrýtið að þetta hafi verið valið. Það er talað um að það hafi verið mikil vinna og allt mjög faglegt í kringum það, en ég túlka það þannig að þetta hafi bara moðast áfram og einhvern veginn verið ýtt á undan sér án þess að sú vinna hafi verið eins og sagt er.

Svo er talað um það núna að ekki sé hægt að hætta við því að verkið sé komið af stað, að þetta húsnæði sem er verið að byggja verði bara í uppnámi og búið að byggja þó að sjúkrahótelið hafi tafist svona eins og staðan er. Það er vel hægt að nota þetta húsnæði í annað en það sem það er hugsað fyrir núna ef til þess kæmi að sú skynsamlega ákvörðun yrði tekin að færa sjúkrahúsið á annan stað. Í húsunum er ekkert endilega eingöngu hægt að reka sjúkrahús. Það er hægt að nota þau í ýmislegt annað.

Ég styð að þetta mál verði tekið föstum tökum, að það fái þá meðferð sem það þarf, komist hér í gegn og að farið verði í þá vegferð að finna nýju þjóðarsjúkrahúsi nýjan stað. Ég ætla ekkert að hafa fleiri orð um það.