149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

óháð, fagleg, staðarvalsgreining fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús.

14. mál
[16:32]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Herra forseti. Það er ekki að ófyrirsynju sem þetta mál kemur upp í þingsölum eina ferðina enn. Við fjölluðum mikið um það á liðnu þingi og sömuleiðis hefur verið mikið fjallað um það á opinberum vettvangi. Mér er mjög eftirminnilegur fundur sem var haldinn í aðdraganda síðustu kosninga, líklega í október 2017, sem samtök um Betri spítala á betri stað héldu í Norræna húsinu og buðu frambjóðendum allra flokka. Á þeim fundi voru mikilsvirtir fagmenn á sviði byggingarframkvæmda, læknavísinda og heilbrigðisvísinda. Þar var farið mjög nákvæmlega yfir feril þessa máls og þær skýrslur sem eru sagðar liggja til grundvallar því staðarvali. Um leið var farið yfir það að allar meginforsendur staðarvals við Hringbraut væru brostnar. Þar stendur, herra forseti, ekki steinn yfir steini.

Staðarval við Hringbraut felur náttúrlega í sér að velja spítalanum stað langt frá landfræðilegri miðju höfuðborgarsvæðisins og ofan í flugvelli. Einkennilegast af mörgu skrýtnu er sú hugmynd að ætla að tengja þessa nýbyggingu við hús sem eru fyrir á staðnum sem eru svo illa haldin af raka og myglu að vitað er að þau hafa valdið starfsfólki alvarlegum meinum og sjúkleika. Svo sérkennilegur sem ferill þess er hafa, jafn oft og þetta mál hefur verið nefnt og farið yfir málefnalegar ástæður, alltaf sprottið upp þeir sem ábyrgð bera á málinu og reynst algjörlega ófærir eða óviljugir til að fjalla um málið á slíkum grundvelli. Það er rekið framan í fólk að svo og svo margir heilbrigðisráðherrar hafi komið að þessu og einhver slíkur óskyldur fróðleikur sem hefur auðvitað ekkert með málið að gera og menn hafa setið fastir við sinn keip í þessu.

Ég ætla að leyfa mér að vænta þess, herra forseti, eða lýsa þeirri von að einn góðan veðurdag muni menn fara yfir þennan feril og átta sig á því að þar eru víti til að varast. Hér er um að ræða ákvörðun sem varðar mjög mikla hagsmuni, þjóðarhagsmuni Íslendinga, mjög miklir fjárhagslegir hagsmunir undir og svo mætti áfram telja. Það er afar sérkennilegt að niðurstaðan skuli hafa orðið sú að halda sig við Hringbraut. Maður getur ekki annað en vonað að það sem kannski komi gott út úr því, þótt síðar verði, sé að menn læri af þeim mistökum sem augljóslega hafa einkennt þennan feril um langa hríð.

Hv. þm. Anna Kolbrún Árnadóttir fór svo vel og rækilega yfir málið í sinni framsögu að það er auðvitað ekki mörgu við að bæta. En ég tek undir með hv. síðasta ræðumanni og vona að þetta mál fái góða og efnislega umfjöllun hérna.