149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Halldóra Mogensen) (P):

Forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi um afnám krónu á móti krónu skerðingar. Þetta frumvarp var áður lagt fram á síðasta þingi, eða 148. löggjafarþingi, og er nú endurflutt með tilteknum breytingum.

Með frumvarpinu er fjárhæð sérstakrar framfærsluuppbótar, sbr. 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð, færð í 22. gr. laga um almannatryggingar. Með því að færa hámarksfjárhæð sérstakrar framfærsluuppbótar inn í ákvæði um tekjutryggingu er stuðlað að minni skerðingu fyrir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega þar sem sérstaka uppbótin í 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð skerðist um 100% vegna allra tekna sem lífeyrisþegar kunna að fá. Slík skerðing hefur í daglegu tali verið nefnd króna á móti krónu skerðing. Einnig skerðast lífeyrisgreiðslur að sama marki og verða því heildartekjur lífeyrisþega óbreyttar þrátt fyrir tekjur annars staðar frá. Þá skerða allar aðrar skattskyldar tekjur uppbótina, þar á meðal bætur almannatrygginga og bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, sem og erlendar tekjur. Slíkar skerðingar geta haft afar neikvæð áhrif á lífskjör örorku- og endurhæfingarlífeyrisþega.

Þess má geta að í fyrri flutningi frumvarps þessa var gert ráð fyrir að ákvæði um sérstaka uppbót sem er að finna í 2. mgr. 9. gr. laga um félagslega aðstoð myndi falla úr gildi. Nú er hins vegar ekki gert ráð fyrir breytingum á lögum um félagslega aðstoð, ekki verður nauðsynlegt að fella út greinina þegar fjárhæð tekjutryggingar er hækkuð með þeim hætti sem gert er ráð fyrir í 1. gr. frumvarpsins. Er þessi breyting gerð að höfðu samráði við Öryrkjabandalag Íslands.

Króna á móti krónu skerðing er mjög hamlandi og leiðir til þess að margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa engan eða lítinn ávinning af atvinnuþátttöku. Núverandi fyrirkomulag gerir lítið úr vinnuframlagi fatlaðs fólks. Við lagabreytinguna myndast hvati til atvinnuþátttöku þeirra sem eiga rétt á þeirri uppbót núna. Þá verður að nefna þann hluta örorkulífeyrisþega sem hefur náð að safna lífeyrisréttindum, en nýtur ekki ávinnings af þeim réttindum vegna krónu á móti krónu skerðingar. Þannig getur þessi breyting veitt þeim hópi mikilvæga kjarabót og aukið tiltrú á lífeyrissjóðskerfið. Þá skerða vextir og verðbætur á bankareikningum og aðrar fjármagnstekjur framfærsluuppbótina, krónu á móti krónu. Það sama á við um aðrar tekjur, til að mynda mæðra- og feðralaun, dánarbætur og úttekt séreignarsparnaðar. Örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum með lágar aðrar tekjur er því gert ókleift að bæta stöðu sína lítillega með tekjum annar staðar að. Vert er að hafa í huga að allar tekjuskerðingar reiknast af tekjum fyrir skatt.

Ellilífeyrisþegar sættu áður skerðingu á sérstakri uppbót til framfærslu vegna annarra tekna. Hún var afnumin með breytingu á lögum nr. 116/2016 þar sem gerðar voru ýmsar einfaldanir og breytingar á ellilífeyriskerfinu. Að gera slíkt hið sama fyrir örorkulífeyrisþega er réttlætismál.

Á 146. löggjafarþingi lagði flutningsmaður fram fyrirspurn til félags- og jafnréttismálaráðherra. Þar var spurt um þann kostnað sem gæti fylgt því að taka fjárhæð sérstakra uppbóta til framfærslu og fella hana undir tekjutryggingu samkvæmt 22. gr. laga um almannatryggingar þannig að hætt yrði að skerða uppbótina krónu á móti krónu vegna annarra tekna lífeyrisþega. Samkvæmt svari ráðherra yrði kostnaður við slíka aðgerð um 11,4 milljarðar kr., miðað við þáverandi fjárhæðir. Gæta verður þó að því að þar er einungis metinn hreinn kostnaður við breytinguna. Ekki er lagt mat á tekjur sem mundu skapast af aðgerðinni, t.d. með aukinni atvinnuþátttöku lífeyrisþega, aukinni framleiðslu og auknum skatttekjum. Ljóst er að raunverulegur kostnaður við aðgerðina yrði nokkru lægri, fyrir utan þann sparnað sem gæti hlotist af slíkri aðgerð þegar við minnkum streitu í lífi fólks og hjálpum því þar af leiðandi að öðlast aftur góða heilsu.

Fjárhæð sérstakrar uppbótar til framfærslu til tekjulausra örorkulífeyrisþega fer eftir því hversu háa upphæð þeir fá í aldurstengda örorkuuppbót og eftir því hvort þeir búa einir eða ekki. Fjárhæðin fer úr því að vera 5.186 kr. á mánuði hjá þeim sem búa með öðrum og eru með hæstu mögulegu aldurstengda örorkuuppbót í að vera 61.772 kr. á mánuði hjá þeim sem búa einir og eru með lægstu mögulegu aldurstengda örorkuuppbót. Til að tryggja að enginn örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegi verði fyrir skerðingu vegna breytinga samkvæmt frumvarpi þessu er nauðsynlegt að hækkun tekjutryggingar sé jafnhá og hæsta mögulega fjárhæð sérstakrar uppbótar til framfærslu, en sú upphæð er 61.772 kr. á mánuði. Er þá gert ráð fyrir því að sú hækkun muni gera það að verkum að sérstök uppbót til framfærslu verði ekki greidd út þegar tekjutrygging er greidd að fullu, og muni því flestir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hætta að fá greidda sérstaka uppbót til framfærslu. Aldurstengd örorkuuppbót skerðir framfærsluuppbótina krónu á móti krónu með þeim afleiðingum að hún nær ekki upprunalegum tilgangi sínum, þ.e. að koma á móts við þá einstaklinga sem fá örorkumat ungir og ná ekki að safna réttindum í lífeyrissjóð. Lagabreytingin yrði til þess að aldurstengd örorkuuppbót myndi ná tilgangi sínum.

Forseti. Króna á móti krónu skerðing heldur örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegum í fátækt. Þetta er fólkið í samfélaginu sem stendur oft verst fjárhagslega. Það að við skulum standa að því að í gildi séu skerðingar sem beinlínis koma í veg fyrir að lífeyrisþegar geti aukið ráðstöfunartekjur sínar er bæði óréttlátt og ósanngjarnt. Afnám krónu á móti krónu skerðingar hefur verið margrætt af íslenskum stjórnmálamönnum. Það að veita þessu frumvarpi góða og skjóta meðferð í nefnd þingsins og svo atkvæði í þingsal getur uppfyllt það loforð sem margir hafa þegar gefið lífeyrisþegum, þ.e. að byggja gólf undir lífeyrisþega en ekki þak sem þeir eru fastir undir. Ég vona að þetta skiptið takist okkur það ætlunarverk að ná breytingunum í gegn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)