149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[16:49]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M):

Herra forseti. Ég er komin hingað upp til að fagna því að þetta frumvarp er komið fram aftur. Ég er enn ánægðari með að það sé eitt af forgangsmálunum. Ég þakka framsögu- og 1. flutningsmanni, hv. þm. Halldóru Mogensen, fyrir þrautseigjuna. Við erum flest sammála um að króna á móti krónu skerðingu er vond. Það er vond staðreynd, alveg sama hvernig við lítum á hana, sem gerir að verkum að margir örorku- og endurhæfingarlífeyrisþegar hafa engan eða alla vega lítinn ávinning af því að taka þátt í samfélaginu. Það er vissulega að taka þátt í samfélaginu þegar maður hefur tækifæri til að vinna.

Það má beinlínis halda því fram að núverandi fyrirkomulag geri lítið úr vinnu þess fólks sem getur og vill leggja sitt af mörkum, því að þeir eru ófáir. Ég vona að lagabreytingin nái fram að ganga í þetta sinn. Mér finnst ansi klént að Öryrkjabandalag Íslands þurfi í dómsmál til að reyna að fá í gegn eðlilega leiðréttingu.