149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:06]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem hérna upp til að fara í andsvar við hv. þingmann en vil að byrja á að þakka hv. þm. flutningsmanni frumvarpsins Halldóru Mogensen fyrir, eins og kom fram í ræðu hjá hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, að sýna það þolgæði og þrautseigju að halda þessu til streitu.

Þetta blessaða kerfi er þannig að ég botna ekkert í því. Ég hef oft setið yfir kaffibolla með hv. þm. Guðmundi Inga Kristinssyni og verið að fræðast um þennan frumskóg sem örorkumálin eru. Þingmaðurinn hefur oft nefnt að við þurfum bara að ýta þessu út af borðinu og byrja upp á nýtt, stokka spilin og byrja upp á nýtt.

Það er kannski of einfalt til að vera satt. En stundum er það nú bara þannig að einfaldleikinn er bestur. Þingmaðurinn kom inn á það áðan í ræðu sinni að þetta hafi orðið að lögum 2009. Þá var ástandið þannig í þjóðfélaginu að það voru krísutímar eftir efnahagshrunið. Mér leikur svolítil forvitni á að vita, því að það er greinilegt er að þingmaðurinn hefur kynnt sér þetta mál mjög vel, hvernig þetta kom til. Hver var ástæðan fyrir því að þetta var sett á, þessi króna á móti krónu skerðing á sínum tíma? Og hver gætu verið rökin fyrir því að þetta sé ekki tekið af? Þetta er ótrúlegt kerfi, það er staðreynd að það er greinilega vinnuletjandi en ekki vinnuhvetjandi. Það er fullt af öryrkjum sem geta unnið eitthvað. Hver er skýringin á að þetta var sett á, hv. þingmaður?