149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

almannatryggingar.

54. mál
[17:10]
Horfa

Sigurður Páll Jónsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svarið sem opnar svolítið fyrir mér hvernig þetta varð til. Ég fylgdist ekkert svo vel með þessu máli á þeim tíma en þetta er þá skýringin. Að þetta hafi verið sett á með góðum vilja en að á móti hafi komið að það skyldi allt verða til skerðingar sem hægt var að finna. Ég trúi ekki öðru en að sumt af því hljóti að hafa verið mistök eða yfirsjón.

En ef það hefur staðið einhvers staðar í smáa letrinu eða sagt að þetta ætti að afnema þegar betur áraði hlýtur að vera kominn tími á það núna. Ég er á þessu máli og finnst það mikið réttlætismál. Ég get ekki ímyndað mér að það komi neitt illa við ríkissjóð. Það hlýtur bara að vera að allt sem er vinnuhvetjandi, eins og ég sagði áðan, sé til bóta.

Eins og kom fram í ræðu hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur eru margir öryrkjar sem geta unnið eitthvað. Aðrir geta það ekki. En einhverjir öryrkjar geta unnið eitthvað. Þá er mjög vont að það sé ekki til neins annars en að það sé tekið af þeim aftur. Þetta hlýtur að vera mjög einfalt mál og ótrúlegt að þetta skuli ekki vera komið í lag.