149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

vegalög.

32. mál
[17:42]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni og meðflutningsmönnum fyrir frumvarpið. Þetta er áhugavert frumvarp, en mig langar að fá upplýsingar um fáein atriði.

Í 2. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Í samgönguáætlun skal ákveða fjárveitingu vegna kostnaðar við ferjur“ o.s.frv.

Þá er spurningin: Er hér um að ræða heildarkostnaðinn, þ.e. 100% greiðslu ríkisins á þeim kostnaði sem til fellur þegar um er að ræða þær þjóðferjur sem þarna eru skilgreindar?

Svo kemur áfram í 2. gr., með leyfi frú forseta:

„Einnig er heimilt að ákveða fjárveitingu til greiðslu hluta kostnaðar við ferjur sem eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu.“

Þá vaknar þessi spurning: Hvaða ferjur eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu og hverjar ekki? Er Hríseyjarferjan mikilvæg? Eða Herjólfur? Hvernig er þessi hluti ákvarðaður? Er það í reglugerð?

Í síðustu málsgreinina í greinargerðinni stendur svo, með leyfi forseta:

„Íbúar á eyjum við landið eiga sjálfsagða kröfu til þess að öruggar samgöngur til og frá heimili séu tryggðar af ríkisvaldinu með því að ríkið standi að rekstri á ferjum á skilgreindum þjóðferjuleiðum …“

Þá gæti svarið einmitt við fyrri spurningu minni falist í því að ríkið standi alfarið að rekstrinum. Þegar ég les þetta svona finnst mér að e.t.v. hefði mátt vinna frumvarpið svolítið betur þannig að nákvæmni væri betur gætt og það væri skýrara hvað flutningsmenn eru að fara með þessum liðum.