149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[18:17]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég hlustaði svo vel á ræðu hans að ég tók eftir því að hann var að tala um flækjustig og samstarf milli stofnana og ég fór að hugsa hvort það væri ekki aukið flækjustig að setja upp aðra stofnun, þótt ég skilji það fyllilega að þessi starfsemi þarf líka að vera hér á höfuðborgarsvæðinu. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé nefndi að það væri full þörf á þessu hér og það væri spurning um lög um Fjölmenningarsetur. Þarf kannski að breyta þeim eða koma á móts við eitthvað af þessu ef það ætti að setja upp útibú hér?

Þá langar mig líka til að spyrja: Á þá að flytja einhver verkefni frá Fjölmenningarsetrinu? Ég held að svona stofnun, ef hún er sett upp sérstaklega, myndi kannski veikja þá stofnun sem fyrir er. Væri ekki nauðsynlegt að byggja einmitt á reynslu hennar og útvíkka þá starfsemi sem þar er?

Þá vildi ég spyrja, ef þetta á að vera í góðri samvinnu og ég veit að það verður, ég efast ekki um að það verður horft til þeirrar starfsemi sem hefur verið þarna nærri tíu ár, hvort það sé einhver hætta á því að verkefni verði flutt frá Fjölmenningarsetrinu.