149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

19. mál
[18:32]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég fékk það ekki af mér að fara í andsvar við hv. þingmann af því að í grunninn held ég að við séum algjörlega sammála. Ég vildi koma hér upp af því að ég skynja, eins og ég nefndi í fyrri ræðu minni, ég veit ekki hvort ótti er rétta orðið, áhyggjurnar er kannski betra orð, yfir því að með þessu sé á einhvern hátt verið að vega að hlutverki Fjölmenningarseturs. Mér finnst þær eðlilegar. Ég held að það snúi ekki bara að búsetu eða neinu slíku, ég held að þetta snúi líka að því að það er unnið mjög gott starf á Fjölmenningarsetri og fólk skilji ekki alveg tilganginn með því að vera að leggja fram tillögu um, virðulegi forseti, svo ég vitni í hv. þm. Guðjón S. Brjánsson, „eina skrifstofuna enn“. Mér fannst hv. þingmaður tala eins og þetta væri nú enn ein stofnunin, það væri ekki leiðin sem við ættum að fara.

Nei, við erum ekkert að fara að stofna einhverjar stofnanir bara til að stofna stofnanir. En þegar skýrsla eftir skýrslu kemur út þar sem lagt er til að flækjustigið í þessum málum verði einfaldað, þar sem lögð er til ný stofnun, eigum við ekki að hlusta á sérfræðinga? Ef sérfræðingar skila tveimur ráðuneytunum skýrslu, tala um nýja stofnun, eigum við þá að segja bara nei, enn ein stofnunin? Eða eigum við kannski að setjast með opinn huga yfir þetta um að kannski sé eitthvað til í öllum þeim ábendingum sem hafa komið fram?

Hér er aðeins vísað til nokkurra þeirra, það þurfi einhvern veginn skýrari sýn í þessum málaflokki, það þurfi að minnka flækjustigið og gera þetta allt einfaldara. Það er hugsunin, virðulegur forseti, með þessari tillögugerð.

Ég ætla að segja það hér að mér sjálfum er alveg sama hvort þessi stofnun muni heita ráðgjafarstofa innflytjenda eða ekki, eða hvort lögum um Fjölmenningarsetur verði einfaldlega breytt og hlutverk þess útvíkkað. Ég held að svona stofnun eigi ekki að heyra beint undir ráðherra eins og Fjölmenningarsetur gerir í dag. Þar sé ég t.d. að væri þörf á að breyta lögum. Ég held að þetta eigi að vera regnhlíf fyrir alla þá aðila sem koma að þessum málum, sem koma að því að þjónusta fólk sem flytur hingað til landsins, sama hvort það er í sex mánuði til að vinna við smíðar eða sex ár til að koma undir sig fótunum undir einhverjar hörmungar, eða 60 ár og svo niðjar og afkomendur næstu 600 ár.

Ég held að markmið okkar allra sé það sama. Þess vegna vildi ég ekki fara í andsvar við hv. þingmann því ég held að í grunninn séum við algjörlega sammála, einnig ég og hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir og þeir þingmenn sem ég hef heyrt tjá sig um þetta mál.

Þess vegna vil ég ítreka að það er ekki verið að stilla þessu upp gegn Fjölmenningarsetri. Það er frekar verið að stilla sér upp með því.

Ég held ekki endilega að við séum á þeim stað að starfsemi í þessu sé fullkomin eins og hún er og það megi ekki setjast yfir þetta og horfa á þetta, það megi ekki útvíkka hana, það megi ekki taka fleiri að sem koma að málaflokknum og það megi ekki horfa til þess að starfsemin eigi að vera víðar.

Það vill svo til að Reykjavíkurborg hefur gefið út samþykkta stefnu þar sem Reykjavíkurborg er að huga að akkúrat svipuðu. Mér finnst sóknarfæri þar. Hvort það verður undir hatti Fjölmenningarsetur og í einhverju samstarfsráði, það er bara hin besta hugmynd. Ef við teljum að það auki á flækjustigið að hafa einhverja svona stofnun eins og hér er kölluð ráðgjafarstofa innflytjenda við hliðina á Fjölmenningarsetri þá skulum við endilega ekki gera það, heldur breyta því umhverfi sem við höfum í dag og útvíkka starfsemi Fjölmenningarseturs.

Þessu vildi ég ekki svara sitjandi einn á skrifstofu minni þótt ég væri að tala við fólk úti í bæ áður en ég lagði þetta fram. Ég vil að hv. velferðarnefnd taki utan um þetta, fái umsagnir héðan og þaðan, verði óhrædd við að breyta og laga að því umhverfi sem við búum við í dag með það skýra markmið að þjónusta við innflytjendur verði eins og best verður á kosið. Ef við tryggjum það saman þá skiptir engu máli hvort þetta heitir ráðgjafarstofa innflytjenda, hvort þetta er enn ein stofnunin eða hvað það er. Ég held, virðulegi forseti, að við höfum öll það sameiginlega markmið. Þess vegna ber ég miklar væntingar til þess að fylgjast með því hvernig hv. velferðarnefnd mun vinna með þetta mál.