149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[18:51]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég gat nú ekki stillt mig um að fá aðeins að eiga orðastað við 1. flutningsmann, hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, um þá þingsályktunartillögu sem hér liggur fyrir, sem ég styð efnislega. Ég vona að þetta þurfi nú ekki margar fleiri tilraunir en við skulum sjá til með það.

Ég velti því fyrir mér hvort þessi þingsályktunartillaga gangi nægilega langt. Ég held að færa þurfi alveg sérstök rök fyrir því að jarðir almennt séu í eigu ríkisins. Auðvitað eru einhverjar sögulegar ástæður fyrir því að jarðir hafa komist í eigu ríkisins; síðan kunna menningarleg verðmæti og náttúruverðmæti að liggja að baki því að við séum sammála um að ríkið eigi viðkomandi jörð. En þegar jarðir eru almennt í ábúð hlýtur það að vera kappsmál fyrir okkur að losa eignarhaldið frá ríkinu og þá yfir til þeirra ábúenda sem nýta jörðina.

Ég velti fyrir mér hvort flutningsmenn hafi velt því fyrir sér að herða aðeins á þessari þingsályktunartillögu sem ég held að væri ágætt vegna þess að það er auðvitað alveg fráleit staða að ekki sé til eigendastefna hjá ríkinu þegar kemur að eignarhaldi á jörðum. Kom til greina hjá flutningsmönnum að leggja það til að í samvinnu við ábúendur verði unnin áætlun um það hvernig koma megi þeim jörðum sem ríkið á en eru í ábúð samkvæmt ákveðnum samningum — og ég sé að það eru á annað hundrað slíkar jarðir — beint í eigu ábúenda?