149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[18:55]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég er sammála henni um það að ákveðin rök eru fyrir því að ríkið eigi ákveðnar jarðir. Um það verður ekki deilt. En ég fullyrði að hvað varðar yfirgnæfandi meiri hluta þeirra 450 jarða sem eru í eigu ríkisins liggi engin ástæða og engin rök á bak við eignarhaldið. Þess vegna held ég að við ættum að hefja þá umræðu, í tengslum við það að móta eigendastefnuna, með hvaða hætti ríkið stígi ákveðin skref í að losa um þetta eignarhald. Ég held að fyrsta skrefið eigi að vera í samráði og samvinnu við ábúendur á viðkomandi jörðum. Við þurfum þá bara að finna út úr því hvernig við getum auðveldað þeim að eignast þá jörð sem þeir eru að nýta. Mér finnst það skynsamlegt.

Ég velti því líka upp af hverju það er talið skynsamlegt að forræði jarða sé á hendi fjármála- og efnahagsráðherra. Ég hygg að sterkari rök séu fyrir því að forræði jarða, a.m.k. þeirra sem eru með ábúðarsamning, sé á hendi landbúnaðarráðherra. Það tryggir a.m.k. meiri samfellu og tryggir kannski betur að einhver stefna gildi um eignarhald á slíkum jörðum. Það má undanskilja einhverjar aðrar jarðir, eins og hv. þingmaður kom að hér áðan, sem við sögulega og menningarlega teljum að við eigum að eiga öll sameiginlega, eins og Þingvellir eru gott dæmi um.

En ég velti því líka fyrir mér hvort ekki eigi einmitt, í þessari vinnu í hv. atvinnuveganefnd, að taka þessi atriði til skoðunar.