149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[19:00]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég tek undir það sem hér hefur komið fram og kemur fram í þessari þingsályktunartillögu að það er mikilvægt að mótuð sé eigendastefna fyrir landareignir ríkisins og hvernig beri að nýta og ráðstafa þeim. Ég vil einnig taka undir það sem hv. þm. Óli Björn Kárason sagði áðan, það er mikilvægt í þessari vinnu og þegar tillagan kemur fyrir nefndina að við reynum að finna út, eins og hann nefndi réttilega, með hvaða hætti ábúendur geti eignast þær jarðir sem þeir sitja á. Það er eðlilegt í þessari umræðu að horft sé til þess að þarna eru bændur sem hafa búið árum og áratugum saman á viðkomandi jörðum og eðlilegt og mikilvægt að tekið sé tillit til þeirra í þessari vinnu.

Ég vil einnig taka undir það sem hv. flutningsmaður og hv. þm. Þórunn Egilsdóttir sagði hér áðan þegar hún ræddi um mikilvægi matvælaframleiðslu. Ég tek heils hugar undir það. Við sjáum hversu mikilvæg matvælaframleiðsla er hér á landi þegar við horfum í kringum okkur eins og hv. þingmaður nefndi réttilega, það eru miklir þurrkar í Skandinavíu og við erum að fá fréttir af miklum þurrkum í löndum eins og Ástralíu, Bandaríkjunum o.s.frv. Það þarf ekki mikið út af að bregða. Við þurfum að hafa hér mjög öflugan og traustan landbúnað sem ríkisvaldið á að styðja. Það er þjóðhagslega hagkvæmt og öll viljum við jú hafa landið í byggð.

En það er því miður þannig að framkoma ríkisvaldsins gagnvart ábúendum á ríkisjörðum hefur ekki verið til fyrirmyndar. Ég held að við getum öll tekið undir það. Við höfum fengið fregnir af því. Hér á síðasta þingið var sérstök umræða um þetta, um ríkisjarðir og ábúendur á þeim. Hér hafa verið nefnd dæmi um það hvernig ríkisvaldið hefur komið fram við ábúendur sem er því miður ekki til fyrirmyndar á mörgum sviðum.

Í fjárlagafrumvarpinu fyrir næsta ár fær Jarðasjóður og Jarðeignir ríkisins 123 milljónir. Það er því ljóst að það eru einhverjir starfsmenn sem vinna við þennan málaflokk. Þrátt fyrir það tekur mörg ár í sumum tilfellum að svara erindum sem berast frá ábúendum ríkisjarða. Það er gott og gilt að hafa eigendastefnu en það er ekki hægt að skýla sér á bak við það að hana vanti þegar stjórnsýslulög eru hreinlega brotin á bændum sem búa á ríkisjörðum og fyrirspurnum ekki svarað fyrr en jafnvel nokkrum árum síðar.

Eins og ég sagði áðan er mikilvægt að landið sé í byggð. Þannig vil ég hafa það. Það má orða það svo að það er ekkert dapurlegra en að sjá eyðibýli og stór og myndarleg tún farin í órækt. Þannig viljum við ekki hafa það.

Stjórnvöld hafa m.a. sett á laggirnar sérstakt átak á ákveðnum landsvæðum til að halda landinu í byggð, átak sem nefnt hefur verið Brothættar byggðir. En á sama tíma gerir athafnaleysi ríkisvaldsins þegar kemur að ábúð á ríkisjörðum að verkum að fólk gefst upp á að bíða eftir svörum og flytur burt. Jafnvel frá brothættum byggðum sem ríkisvaldið er síðan að reyna að styðja við.

Það eru mörg dæmi þess að börn ábúenda á ríkisjörðum vilji taka við búskapnum af foreldrum sínum og þá gjarnan með það í hyggju að stækka húsakost og mæta nýjum aðbúnaðarreglum sem ríkisvaldið setur. Það er ekki vandamálið að ríkið heimili að börn ábúenda komi inn í búskapinn. En ríkisvaldið stendur samt í vegi fyrir allri uppbyggingu á þessum jörðum þar sem það leyfir engar stórframkvæmdir. Og stórframkvæmd er náttúrlega að byggja nýtt fjós svo að hægt sé að framfylgja nýjum kröfum um aðbúnað. Það verður samkvæmt þessum kröfum að endurnýja mörg af þessum húsum til framtíðar. Lausn ríkisins í þeim efnum er þá einfaldlega sú að ábúendur geti tekið lóð úr jörðinni undir byggingar. En það er hins vegar ekki framkvæmanlegt að byggja stórt fjós án jarðar, ég held að menn hljóti að átta sig á því. Það virðist hins vegar vera eitthvað erfitt fyrir þá sem starfa fyrir hönd ríkisins að þessum málum að átta sig á því. Við myndum að sjálfsögðu ekki sætta okkur við slíka afarkosti, að ætla að fara í einhverja fjárfestingu í stórum byggingum eins og fjósi án þess að hafa tryggingu fyrir því að maður geti nýtt landið sem þarf til frambúðar, til þess að geta nýtt sér þá fjárfestingu sem fjósbyggingar eru að sjálfsögðu.

Þá er spurningin þessi: Er hægt að kaupa jörðina? Jú, það er kannski hægt að kaupa jörðina en í flestum tilfellum tekur sú skrifstofa sem sér um ríkisjarðir meginpart landsins undan jörðinni og færir hann Landgræðslunni. Það er svolítið merkilegt að Landgræðslan sé að verða stofnun sem safnar landi. Maður spyr sig: Er það tilgangur Landgræðslunnar að eignast land? Er ekki tilgangurinn að hjálpa fólki, bændum eða öðrum landeigendum að græða upp land?

Það eru til fjölmörg dæmi um það hvernig ríkisvaldið hefur komið fram með neikvæðum hætti gagnvart ábúendum ríkisjarða. Að fá svar við því hvort hægt sé að byggja nýtt fjós getur tekið mörg ár. Það sjá það allir að það getur enginn stundað þannig rekstur sem þarf að vera háður svona framkomu, og ég leyfi mér að segja úr þessum ræðustól, lítilsvirðingu. Ég vona að þessi þingsályktunartillaga sem hér er flutt í fjórða sinn, að mér skilst, geti orðið til að bæta ástandið en það lýsir kannski ástandinu að verið sé að flytja þessa tillögu í fjórða sinn. Það virðist ríkja ákveðið áhugaleysi á að bæta þetta ástand sem er svo sannarlega þörf á að gera. Ég er hins vegar hræddur um, að fenginni reynslu, eftir að hafa skoðað þessi mál og rætt við ábúendur á ríkisjörðum sem bera allir þessa sömu sögu, að það geti tekið mörg ár að móta eigendastefnu ríkisins þegar kemur að bújörðum.

Það sem er hins vegar hægt að gera strax er að bæta verklagið hjá Jarðeignum ríkisins, að þar hugi starfsmenn að því að geta sett sig í spor annarra og svara erindum fljótt og vel. Ég vona svo sannarlega að við getum farið að koma fram við ábúendur ríkisjarða með mannsæmandi hætti og leyst þetta mál sem hefur því miður verið allt of lengi yfir okkur öllum. Ég fagna þessari tillögu og veit að þar er góður hugur að baki hjá hv. þingmanni. Hún fór hér inn á marga þætti sem skipta máli í þessu. Ég vona að núna í þetta sinn, í fjórða sinn, fái málið góða afgreiðslu héðan úr þessum sal og innan nefndarinnar þannig að allir geti vel við unað og sérstaklega ábúendur á ríkisjörðum.