149. löggjafarþing — 9. fundur,  24. sept. 2018.

mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða.

20. mál
[19:10]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér ræðum við þingsályktunartillögu um að mótuð verði eigendastefna ríkisins vegna bújarða. Ég er meðflutningsmaður á þeirri tillögu ásamt öðrum þingmönnum Framsóknarflokksins. Ég tel afskaplega mikilvægt að tillagan hljóti umfjöllun í þingsal, fái umfjöllun í nefnd og nái fram að ganga. Eins og þegar er komið fram við umræðuna er margt sem þarf að taka inn í þá umræðu og að mörgu að hyggja.

Land, og þar með jarðir, er ekki eins og hver önnur fasteign. Land er auðlind, landið sem slíkt og jarðvegurinn og gróðurinn sem þar þrífst, hvort sem hann er náttúrulegur eða ræktaður. Auk þess geta fylgt landi önnur gæði sem enn auka verðmæti, eins og veiði- eða vatnsréttindi. Meðferð og notkun lands skiptir máli nú og til framtíðar. Almenningur hefur mikla hagsmuni af því hvernig við ráðstöfum landi. Það felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfun lands almennt og því skiptir eignarhald og ákvarðanataka um landnýtingu máli, þar með talin ráðstöfun ríkisjarða.

Ríkisjarðir eru í sjálfu sér ekki stór hluti jarða í landinu. Skráð eru 6.600 lögbýli í árslok 2017 en ríkisjarðirnar eru ekki nema um 450. Af þeim 450 jörðum er um helmingur í notkun í landbúnaði, rúmlega 120 með útgefið byggingarbréf en svipaður fjöldi er nýttur af öðrum bændum, um 100. Tæplega 100 eru ónýttar eyðijarðir og um 100 eru í ráðstöfun ríkisstofnana, eins og Skógræktar ríkisins, Landgræðslunnar eða annarra. Á hverjum tíma eru einhverjar lausar jarðir til ábúðar, sennilega innan við tugur núna.

Ríkisjörðunum er ekki jafnt dreift um landið, þær dreifast nokkuð misjafnlega, en flestar eru á Austurlandi og í Vestur-Skaftafellssýslu, einmitt á svæðum þar sem byggð stendur höllum fæti og er frekar brothætt samkvæmt þeirri skilgreiningu. Ráðstöfun ríkisjarða er margþætt hagsmunamál fyrir nærsamfélagið því að þegar jörð fer í eyði hefur það fjölþætt áhrif og raskar samfélagsgerð þar sem síst skyldi, í ljósi þess hversu ójafnt þær dreifast.

Í reglum um ráðstöfun ríkisjarða frá 2011 segir að þeim skuli að jafnaði ráðstafað til ábúðar eða útleigu með leigusamningum svo sem best samræmist markmiðum um búsetu og landbúnað. Þeim reglum hefur ekki verið fylgt síðustu árin en eins og áður sagði felast miklir almannahagsmunir í ráðstöfuninni. Þeir geta vissulega falist í öðru en nýtingu til búskapar og þess vegna er eitt af því sem þarf að fara í í þeirri vinnu að skýra markmiðin, ef ríkið á að eiga jarðir, hver eiga þá markmiðin með því eignarhaldi að vera? Þau geta og munu sennilega í öllum tilfellum vera önnur en að hagnast í krónum og aurum af landnotkuninni. Markmiðin tengjast á einhvern hátt varðveislu auðlinda og eigna sem hafa verið byggðar upp.

Í því ljósi þarf að svara því við mótun eigendastefnu hvort æskilegt eða skynsamlegt sé að þeir sem vilja hefja búskap hafi tækifæri til að leigja land og eiga þau tækifæri þá að felast í því að leigja land af ríkinu eða væri hægt að fara þá leið að leigja frekar af þeim sem eiga margar jarðir? Í hverju felast almannahagsmunir til lengri tíma litið? Ég tel að skynsamlegt geti verið að ríkið eigi eitthvert land og jarðir beinlínis til að stuðla að endurnýjun í landbúnaði, það er alla vega mjög mikilvægt að tekin sé afstaða til þess.

Þá held ég að mjög mikilvægt sé að skoða samspil við skipulagsáætlanir sveitarfélaga, bæði við ráðstöfun ríkisjarða og í umræðu um aðrar takmarkanir á ráðstöfun jarða, hvort sem það er með sölu eða á annan hátt. Í skipulagsáætlunum væri skynsamlegt að afmarka land sem á hverjum tíma ætti að tryggja að væri tilbúið til landbúnaðarnotkunar, hvort sem það væri stöðugt í notkun eða ekki. Það er hluti af matvælaöryggi þjóðarinnar. Eins gæti í skipulagsáætlun verið mögulegt að tilgreina svæði þar sem æskilegt væri að væri heilsársbúseta. Það gæti verið með ýmsum markmiðum. Það væri til að tryggja ákveðna samfélagsgerð. Það gæti líka verið vegna öryggissjónarmiða. Einn bær við þjóðvegi landsins getur skipt sköpum varðandi öryggi vegfarenda. Við getum nefnt vegi eins og yfir Möðrudalsöræfin eða um Djúpið. Það er eitt af því sem ég held að mikilvægt sé að taka inn í umræðuna.

Það er kannski rétt að koma inn á að í frumvarpi til fjárlaga fyrir næsta ár eru heimildir til sölu eða leigu á nokkrum ríkisjörðum. Svo ég að nefni nokkrar er það Unuós á Fljótsdalshéraði, Kvígsstaðir í Borgarbyggð, Bakkakot II í Skaftárhreppi. Þarna eru jarðir sem hefur verið heimild fyrir sölu eða leigu á á síðustu árum en það hafa ekki endilega fylgt aðgerðir, jarðirnar hafa ekki verið auglýstar og ekki heldur verið skýr svör um ráðstöfun þótt leitað hafi verið eftir þeim af áhugasömum einstaklingum.

Það er mikilvægt að eiga þessa umræðu og mikilvægt að tillagan fari til frekari umfjöllunar. Stefna um ráðstöfun ríkisjarða þolir ekki bið að mínu mati. Þetta hefur verið í allt of mikilli biðstöðu í mörg ár. Það er ekki að ástæðulausu sem því hefur verið haldið fram að ríkið sé lélegur bóndi því að óháð eignarhaldi og nýtingu lands er það alltaf hlutverk bónda eða þess sem hefur umsjón með landi að viðhalda og byggja upp verðmæti, auðlindina sem hann hefur umsjón með. Í því felst sjálfbærni.