149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Meginstraumvötn landsins eru jökulár, eins og allir vita. Þar verða gríðarlegar sveiflur í rennsli. Það eru snjóleysingar, skyndileg úrkoma, jökulhlaup. Þau geta verið lítil og meðalstór, um 1.000–5.000 rúmmetrar á sekúndu, eða þrjár til 15 Ölfusár. Þau geta verið stór, 50.00–200.000 rúmmetrar á sekúndu, eða 15- til 70-falt rennsli Ölfusár, þar á meðal getur Katla gamla staðið fyrir slíku.

Við höfum þar með skipulagt flóðavarnir. Þetta eru fyrirhleðslur og garðar og það eru verkefni sem eru á hendi Landgræðslu ríkisins. Landgræðslan hefur fengið 70 millj. kr. fast á ári óbreytt í tíu ár. Verkefnin eru þá umsóknir sem stofnunin afgreiðir eða verkefni sem eru að frumkvæði Landgræðslunnar sjálfrar. Nú liggur fyrir verkefnalisti upp á yfir 70 verkefni og þau eru langflest á Suðurlandi. Fjárþörfin er 360 millj. kr.

Þegar horft er á þetta er spurt: Hvað með varnir gegn náttúruvá? Það er augljóst að þarna er um að ræða bæði landbrot og ógn við byggð og annað lífríki. Það er greinilega kominn tími til að breyta. Varnir gegn náttúruvá eru ákaflega mikilvægur þáttur á Íslandi út af því hvernig náttúrufarið er. Hér eru stór eldfjöll, ég þarf ekki að nefna þau, sem eru í eins konar undirbúningsfasa undir eldgos. Þeim eldgosum fylgja yfirleitt mjög stór jökulhlaup.

Það er því mjög nauðsynlegt að fara út í greiningu og útbúa einhvers konar aðgerðaáætlun. Ég hyggst undirbúa þingmál um það efni og leggja fram í þinginu.