149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mikið hefur verið rætt um líðan ungmenna og ekki að ástæðulausu. Bæði stúlkur og drengir hafa í auknum mæli glímt við margs konar geðraskanir, kvíða, þunglyndi og sjálfsskaða. Þróunin hér á landi er svipuð og annars staðar eins og fram hefur komið í fjölmiðlum. Til að bæta úr er unnið hörðum höndum að því að bæta geðheilbrigðisþjónustuna, m.a. með því að bjóða upp á sálfræðiþjónustu á heilsugæslustöðvum.

Í fjárlögum næsta árs eru settar 650 millj. kr. til þess að efla geðheilbrigðisþjónustuna á landsvísu innan heilsugæslunnar, bæði til að fjölga geðheilsuteymum og stöðugildum sálfræðinga. Í árslok 2019 er stefnt að aðgengi með gagnreyndri meðferð sálfræðinga við algengustu geðröskunum, svo sem þunglyndi, kvíðaröskunum og áfallastreitu, á 90% heilsugæslustöðva samkvæmt aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í geðheilbrigðismálum.

Það er í takt við stefnu okkar Vinstri grænna að efla þjónustu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar. Tölur sýna vaxandi sókn í þjónustu heilsugæslunnar og í því skyni verða framlög aukin um 200 millj. kr. Í dag er boðið upp á gjaldfrjálsa þjónustu sálfræðinga fyrir börn að 18 ára aldri á öllum heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins og sálfræðingar fyrir fullorðna hafa nú tekið til starfa á sex stöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Sálfræðingarnir sjá um að meta, greina og veita meðferð við tilfinninga- og hegðunarvanda barna, veita foreldrum ráðgjöf og mynda teymi í kringum barn, m.a. með aðkomu félagsþjónustu, skóla og annarra stofnana sem koma að málefnum barnsins gerist þess þörf.

Fram til þessa hefur vantað sálfræðiþjónustu fyrir fólk eldra en 18 ára en þar hefur orðið breyting á og er m.a. boðið upp á hópameðferð í hugrænni atferlismeðferð. Markmiðið er að allir geti sótt sálfræðiþjónustu sem næst búsetu og þar er heilsugæslan lykilstofnun, enda mikilvægt að grípa snemma inn í áður en vandinn verður alvarlegri.

Framtíðarsýnin er að aðskilja ekki geðheilbrigði frá almennu heilbrigði, þ.e. að í grunnþjónustu heilsugæslunnar þurfum við ekki að vísa annað ef um geðræna erfiðleika er að ræða.