149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég var á fundi í morgun hjá UNICEF á Íslandi um stöðu barna og þá miklu og óeigingjörnu baráttu sem starfsmenn samtakanna vinna hvern einasta dag í þágu barnanna okkar, halda höndum saman við umboðsmann barna, við Barnaheill og alla. Það er ótrúlegt afl og vinna sem þau vinna. Þau biðja um stuðning okkar alþingismanna. Það er okkar að búa til heildstætt kerfi og aðstoða eins og kostur er til þess að börnin okkar geti notið þeirra réttinda sem barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna veitir þeim.

Það er ekki nóg að löggilda sáttmálann, það verður líka að framfylgja honum og þar er stórkostleg vöntun á.

Flokkur fólksins varð til þegar ég heyrði um skýrslu UNICEF í janúar 2016. Það er síðasta skýrslan sem við höfum fengið og þau birta venjulega nýja skýrslu á þriggja ára fresti. Sú skýrsla byggðist í raun á tveimur þáttum, einkum á stöðu barna í kjölfar hrunsins. Við eigum von á nýrri skýrslu í janúar 2019. Við getum ekki annað en verið þakklát fyrir þá miklu vinnu sem lögð er í að reyna að efla börnin okkar og koma til móts við þau hvar sem þau búa. En staðreyndin er sú að þeim er mismunað eftir búsetu. Það er náttúrlega í boði ríkisvaldsins sem fleygði ákveðnum ábyrgðarþáttum í fangið á sveitarfélögum á sínum tíma, grunnskólum og öðru, sveitarfélögum sem ekki voru burðug fyrir en misstu mikið úr sínum ranni þegar framsal kvótans varð til þess að skipin fóru burt og þar með aðaltekjulindin, sem voru hin góðu laun sjómannanna sem bjuggu þar. Eftir sitja þessi sveitarfélög í sárum og þar af leiðandi líka börnin sem þar búa.

Ég segi: Tökum saman höndum, hvar í flokki sem við stöndum, og látum þetta verða eitt af þeim málefnum sem varðar okkur öll.