149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:38]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á tillögu Samfylkingarinnar sem dreift var hér í gær og er um málefni barna. Við í Samfylkingunni teljum mjög aðkallandi að gerð verði tímasett og fjármögnuð áætlun til að bæta hag og líðan barna hér á landi. Við leggjum áherslu á forvarnir, varnir gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum og á bætta stöðu barna innflytjenda, barna með þroskafrávik og langveikra barna. Fjölskylduvænni vinnustaðir, styttri vinnuvika, lengra fæðingarorlof og betri barnabætur skipta einnig afar miklu fyrir hag íslenskra barna.

Við viljum með tillögunni setja málefni barna í forgang og skilja ekkert þeirra út undan. Í þingsályktunartillögunni er ríkisstjórninni falið að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun fyrir árin 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggjast m.a. á rétti barna eins og hann er skilgreindur í barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, á tilmælum ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2011 til aðildarríkja um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur og Evrópuráðssamningi um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun.

Einnig voru skýrslur umboðsmanns barna frá árinu 2017 um helstu áhyggjuefni ásamt nýlegum skýrslum umboðsmanns lagðar til grundvallar.

Við leggjum til samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna. Áætlunin telur í heildina 49 aðgerðir og ég hvet hv. þingmenn, fjölmiðla og aðra þá sem vilja beita sér fyrir bættum hag barna til að kynna sér tillöguna.