149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:40]
Horfa

Albertína Friðbjörg Elíasdóttir (Sf):

Herra forseti. Það eru sannarlega forréttindi að lifa á þeim tíma sem við lifum í dag. Samskipti við vini og ættingja hvar sem er í heiminum hafa sjaldan verið auðveldari og sama má segja um alls kyns þjónustu og aðgengi að henni. Við getum pantað vörur og þjónustu nánast hvaðan sem er einfaldlega í gegnum símana okkar og tölvur. Þetta þýðir að sama skapi aukið frelsi þegar kemur að búsetu, eða ætti í það minnsta að gera það, þar sem ýmis stafræn þjónustu færist í vöxt og verslunar- og þekkingarstörfum fjölgar stöðugt.

Mig langar að vekja athygli þingheims og vonandi fleiri á þeirri staðreynd að þjónusta í gegnum netið virkar í báðar áttir. Það er ekki náttúrulögmál að fækka þurfi starfsfólki utan höfuðborgarsvæðisins þegar verið er að færa þjónustu á netið heldur ætti einmitt að nýta tækifærið og leggja til eflingu starfsstöðva og stofnana utan höfuðborgarsvæðisins til að þjónusta allt landið frekar en að leggja til nýjar stofnanir í Reykjavík sem eiga jafnvel að gera það sama og stofnanir utan höfuðborgarsvæðisins gera nú. Við stöndum einmitt frammi fyrir því nú í þinginu með tillögu um stofnun ráðgjafarstofu innflytjenda.

Við höfum dæmi um stofnanir sem hafa sýnt okkur að þetta er svo auðveldlega hægt og skilar góðum árangri. Eitt besta dæmið er ríkisskattstjóri þar sem ólík þekking hefur verið byggð upp á ólíkum stöðum sem þjónusta svo allt landið. Ég get nefnt fleiri dæmi, svo sem Umhverfisstofnun, Þjóðskrá og Veðurstofuna.

Herra forseti. Ég skora á hv. samþingmenn mína að muna eftir því í verkefnum sínum, hvort sem er í fjárlaga- eða tillögugerð, að í dag er hægt að sinna fjölmörgum verkefnum hvar sem er á landinu og þjónusta samt sem áður allt landið.