149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:42]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í síðustu viku var 13. ráðstefna þingmanna um norðurskautsmál í Finnlandi. Mig langar til að fara aðeins yfir þá ráðstefnu, alþjóðastarf þingsins og kostnaðinn sem var þar á bak við.

Alþjóðasamstarfið er gríðarlega gott tækifæri fyrir Ísland til að hafa áhrif á gang heimsmála. Í því samhengi getum við sagt að Kleppsvegur 22 sé Ísland í skilningi þess hversu lítill Kleppsvegur 22 er miðað við Ísland allt, á sama hátt hlutfallslega og Ísland er miðað við allan heiminn. Ísland er um 0,005%, eða jafnvel minna en það, af öllum heiminum.

Dæmi um áhrif Íslands og ástæðuna fyrir því að mæta komu vel fram á ráðstefnunni. Eftir að forseti Samaþingsins hélt kynningarræðu sína þar sem hún fjallaði um erfiðleika þeirra við að viðhalda tungumálum sínum fékk ég þá hugmynd að bera upp tillögu um samvinnu norðurskautsþjóðanna í máltækni. Tillagan var borin upp tveimur klukkutímum síðar og samþykkt seinna um daginn.

Þetta er skýrt dæmi um mikilvægi þess að taka þátt í alþjóðastarfi, skýrt dæmi um að þótt við séum fámenn, Kleppsvegur 22, getum við haft áhrif. Okkar reynsla í máltækni í þinginu, að fjalla um hana, hafði áhrif á starf ráðstefnu norðurskautsþingmanna.

Á meðan ég var í Finnlandi kom hins vegar upp umræða um mikinn kostnað við það alþjóðastarf. Það er vissulega rétt en hlutverk okkar þingmanna er að gera starfið verðmætt fyrir land og þjóð. Ef við nýtum ekki tækifærið er auðvitað tilgangslaust að taka þátt.