149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera grafalvarlegt mál ef rangar upplýsingar birtast á vef Alþingis, ekki einar heldur margar rangar upplýsingar. Það sem ég er að tala um hér er Nuuk-ferðin. Fyrstu röngu upplýsingarnar sem koma þar fram er að bara einn sé frá velferðarnefnd. Það eru tveir frá velferðarnefnd.

Síðan er sagt: Það er bara eitt hótel í Nuuk. — Það er ekki bara eitt hótel í Nuuk. Síðan var ég sakaður um að vera að ásaka starfsfólk þingsins um að það hefði valið þetta hótel. — Nei. Það kemur fram á vefnum að skrifstofa Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn gerði það. Síðan segja þeir að einn þingmaður hafi dvalið aukadag í Nuuk. Það er rétt, en líka starfsmaðurinn.

Fundir Norðurlandaráðs eru fimm sinnum á ári og kosta 17 milljónir, segja þeir. Það eru 600 milljónir hjá skrifstofu Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn. Það eina sem ég var að spyrja um var: Er þetta nauðsynlegt?

Við getum tekið dæmið sem kom í grein í Morgunblaðinu, sem er annað sem er mjög alvarlegt, að þær upplýsingar sem birtust í Vísi um helgina séu rangar. Í Morgunblaðinu í morgun er sagt frá ferð sem fara á í vegna fundar Sameinuðu þjóðanna. Þá eiga fjórir að fara. En í fréttinni segir líka að í fyrra hafi tveir farið. Ef tveir dugðu í fyrra, af hverju duga þá ekki tveir líka í ár?

Það er þetta sem ég er að spyrja um. Við erum með á annan tug nefnda og það kostar hellingspening. En þegar málefnið snýr t.d. að öryrkjum er alltaf talað um að takmarkaða fjármuni ríkissjóðs. Þá hefur einhver komið hér upp og sagt: Fjármunir ríkisins eru takmarkaðir og við eigum að fara vel með þá í erlendum nefndum og öðru.

Við eigum að endurskoða kostnaðinn á hverju einasta ári. Gildir það ekki sama þar? Eða gildir eitthvað annað? Er það ekki alvarlegt mál, herra forseti, að á vef (Forseti hringir.) Alþingis séu ekki réttar upplýsingar?