149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Í gær mælti sú sem hér stendur fyrir einu af forgangsmálum Framsóknarflokksins um mótun eigendastefnu ríkisins með sérstöku tilliti til bújarða. Þetta mál er nú lagt fram í fjórða sinn.

Markmið tillögunnar er einkum það að málefni bújarða séu höfð að leiðarljósi við mótun almennrar eigendastefnu ríkisins og stefnan tryggi möguleika fólks til að hefja búskap. Einnig þarf að horfa til náttúruverndar og uppbyggingar ferðamannasvæða, sömuleiðis þarf að skilgreina hvers konar landsvæði skuli vera í eigu ríkisins og þar með hvaða landsvæði sé heppilegt að sé í eigu ríkisins eða einkaaðila.

Margar jarðir í eigu ríkisins hafa mikla sérstöðu með tilliti til náttúru, sögu og menningar en flestar bújarðir og jarðarhlutar eru í umsjón stofnana ríkisins eða ábúenda sem hafa þær til afnota gegn leigugjaldi. Fjármálaráðuneytið hefur lagt fram drög að meginþáttum nýrrar eigendastefnu sem byggir á úttekt Hagfræðistofnunar. Fram kom í sérstakri umræðu hér í fyrra að unnið er að því að yfirfara athugasemdir sem borist hafa og til stóð að koma saman ráðgjafarhóp ráðuneytinu til aðstoðar við framlagningu endanlegra tillagna.

Ekki fæ ég séð annað en að mönnum þyki málið brýnt en lítið hef ég séð af tillögum. Einhver hreyfing hefur orðið í þessum málum en málið er aðkallandi þar sem of margar jarðir hafa farið úr ábúð eða stefna í það. Það veikir hinar dreifðu byggðir og þá staðreynd að ríkið hefur yfir að ráða fjölmörgum jörðum lít ég á sem tækifæri til að styrkja byggð og samfélög.

Ráðstöfun ríkisjarða er margþætt hagsmunamál fyrir nærsamfélagið því að þegar jörð fer í eyði getur það raskað samfélagsgerð þar sem síst skyldi. Fram komu ýmsar hugmyndir í umræðum gærdagsins sem vel má taka inn í vinnu við þetta mál. Má þar nefna atriði eins og hvort þessi málaflokkur eigi yfirleitt að tilheyra fjármálaráðuneytinu. Þurfum við ekki að endurskoða ábúðarkerfið? Hvernig nýtum við jarðirnar? Hvaða jarðir á ríkið að eiga? Á ríkið að eiga jarðir? Er ríkið besti bóndinn? Geta bændur verið meiri þátttakendur í landgræðslu og hvernig þá? (Forseti hringir.) Margt fleira má nefna en öll getum við verið sammála um að þessum málum þarf að koma í farveg og það sem fyrst.