149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:11]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir þessari sérstöku umræðu. Þetta er gríðarlega mikilvægt umfjöllunarefni sem mér fannst full ástæða til að bregðast við eins hratt og hægt væri, að við flyttum þessa umræðu inn í þingsal. Þó að við höfum alloft nefnt þetta í óundirbúnum fyrirspurnatímum fáum við aðeins meira ráðrúm til að ræða einstaka þætti.

Ég ætla að vinda mér beint í spurningar hv. þingmanns sem spyr til hvaða ráða heilbrigðisráðherra hafi gripið vegna alvarlegra afleiðinga ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja. Svar mitt er margþætt. Ég ætla að reyna að gera grein fyrir helstu aðgerðum sem gripið hefur verið til í þessu skyni.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að í byrjun þessa árs skipaði ég starfshóp undir forystu Birgis Jakobssonar, þáverandi landlæknis, til að leita leiða til að sporna við mis- og ofnotkun geð- og verkjalyfja, en starfshópurinn skilaði skýrslu sinni 24. maí sl. Í skýrslunni segir m.a. að ástæður mikillar lyfjanotkunar hér á landi séu af ýmsum toga og að samhliða miklu magni af ávanabindandi lyfjum í umferð aukist hætta á of- og misnotkun. Tillögur hópsins miða fyrst og fremst að því að takmarka magn ávanabindandi lyfja í umferð og styðja góðar ávísunarvenjur lækna en einnig að því að efla eftirlit.

Jafnframt kemur fram að mikilvægt sé að almenningur sé upplýstur um þá hættu sem stafar af rangri notkun þessara lyfja. Tillögur starfshópsins eru í níu liðum og miða samtímis að því að sporna gegn misnotkun og ofnotkun án þess að ganga gegn hagsmunum þeirra sjúklinga sem hafa sannarlega gagn af þessum lyfjum. Aðgerðirnar miða í fyrsta lagi að því að takmarka aðgang, í öðru lagi að auka fræðslu bæði hjá fagstéttum og almenningi, í þriðja lagi að herða eftirlit með ávísunarvenjum lækna, í fjórða lagi að gera kröfur um bætta greiningu á ADHD og í fimmta lagi að bæta aðgang að öðrum úrræðum en lyfjum við meðferð á ADHD, svefnvanda, kvíðaröskun og langvinnum verkjum, að við höfum yfir fleiri úrræðum að ráða en lyfjagjöf.

Nú er að því unnið að koma þessum tillögum öllum til framkvæmda.

Í öðru lagi vil ég nefna vinnustofu sérstaklega um málefni barna sem glíma við neysluvanda sem velferðarráðuneytið efndi til 5. júní. Í þeirri vinnustofu var rætt sérstaklega um framtíðarfyrirkomulag áfengis- og vímuefnameðferðar fyrir börn og ungmenni, hvernig efla mætti bráðaþjónustu við þann hóp og tryggja samfellu í þjónustunni. Sú vinnustofa stóð í heilan dag og voru þar fulltrúar frá Landspítala, Barnaverndarstofu, umboðsmanni barna, Reykjavíkurborg, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Olnbogabörnum, SÁÁ, embætti landlæknis og lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Þar deildu sérfræðingar þekkingu sinni og reynslu og skoðuðu leiðir að bættu fyrirkomulagi.

Í þriðja lagi vil ég nefna að á sameiginlegum fundi mínum og félags- og jafnréttismálaráðherra nú í ágúst var samþykkt tillaga mín um stefnumótun varðandi meðferð við fíknivanda. Fyrsta skref þeirrar stefnumótunar er að stofna stýrihóp til að vinna tillögur um hvaða úrræði myndu best henta börnum og ungmennum með bráðaneysluvanda, þ.e. fíkniefna- og áfengisvanda.

Stýrihópurinn verður skipaður fulltrúum heilbrigðisráðherra og barna- og unglingageðdeild Landspítalans annars vegar og fulltrúum frá félags- og jafnréttismálaráðherra og Barnaverndarstofu hins vegar. Í því efni skiptir heilmiklu máli að þarna er ábyrgðin á verkefninu alveg skýrt hjá heilbrigðisráðherra en fellur ekki á milli ráðherra, eins og oft og einatt hefur því miður verið í þessum málaflokki. Hópurinn á að skila niðurstöðum til mín eigi síðar en 15. desember nk.

Í fjórða lagi vil ég nefna það sem hv. þingmaður nefndi sem eru breytingar á ýmsum reglugerðum. Þegar hafa verið gerðar breytingar. Í fyrsta lagi: Afgreiðsla á lyfjaávísunum vegna eftirritunarskyldra lyfja er takmörkuð við 30 daga skammt hverju sinni. Það er breyting. Í öðru lagi: Ekki er heimilt að afgreiða fjölnota lyfseðil nema að minnsta kosti 25 dagar líði milli afgreiðslna vegna eftirritunarskyldra lyfja. Og loks að ekki er hægt að fá afgreitt lyf úr ákveðnum lyfjaflokkum, svo sem amfetamín og metýlfenídat, nema fyrir liggi lyfjaskírteini fyrir viðkomandi sjúkling hjá Sjúkratryggingum Íslands.

Þá vil ég geta þess að frá og með 1. september sl. er aðeins heimilt að ávísa ávana- og fíknilyfjum á rafrænan hátt og ekki verður heimilt að innleysa lyfjaávísanir vegna ávana- og fíkniefna sem gefnar eru út á Evrópska efnahagssvæðinu. Þannig að það er líka viðleitni í að ná betur utan um þetta mál.

Í fimmta lagi vinnur embætti landlæknis í samvinnu við velferðarráðuneytið nú að aðgerðaáætlun og stefnu í áfengis- og vímuefnavörnum. — Af því að ég sé, virðulegi forseti, að tími minn er að renna út ætla ég að reyna að snerta á fleiri málum. — Í sjötta lagi er unnið að uppbyggingu skaðaminnkandi úrræða og neyslurýma. Þar er um að ræða að styðja Konukot og nálaskiptaþjónustu Frú Ragnheiðar en að bæta því við að koma upp neyslurými í Reykjavík fyrir fíkniefnaneytendur að erlendri fyrirmynd og í samvinnu við Reykjavíkurborg og Rauða krossinn. Sú samvinna er komin á lokasprettinn.

Hv. þingmaður spyr líka hvort eiga megi von á því að ég endurnýi og/eða auki þjónustusamning við SÁÁ. Mitt svar er að ég hef til skoðunar tillögur um að fjölga meðferðum við ópíumfíkn. Ég hef það til jákvæðrar skoðunar því að mér skilst að engir annmarkar séu á því að samþykkja þær tillögur sem eru þar að lútandi úr 90 (Forseti hringir.) í 120. Með því verður tryggt að framboð á þjónustunni verði í samræmi við þörf.

Virðulegi forseti. Ég þarf að nefna málefni Krýsuvíkur í lok umræðunnar og mun gera það.