149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um samfélagsógn sem á sér fá landamæri, skeytir ekki um aldur, þjóðerni, stétt eða stöðu. Þetta snertir alla, líka okkar þjóð. Íslendingar eru miklir lyfjaneytendur. Hér á landi nota um 55% fólks lyfseðilsskyld lyf sem er fjórða hæsta hlutfall Evrópulanda. Við notum tvisvar til þrisvar sinnum meira en Norðurlandabúar af örvandi lyfjum, róandi, kvíðastillandi og svefnlyfjum ásamt verkjalyfjum. Notkunin er sú mesta innan OECD-landanna og fimm sinnum meiri en í Danmörku.

Notkun fullorðinna á lyfjum við ofvirkni og athyglisbresti, ADHD, hér á landi hefur fjórfaldast á tíu ára tímabili og er hvergi meiri í heiminum. Um 13% allra íslenskra drengja á aldrinum 10–14 ára taka einhvers konar ADHD-lyf. Það er margfalt meira en á öðrum Norðurlöndum en Svíþjóð kemst næst okkur með um 5% hlutfall. Þá er notkun þunglyndislyfja hvergi hærri meðal frændþjóðanna en hér og munar um 35–50%.

Íslenskar stúlkur á aldrinum 15–24 ára taka ríflega fjórum sinnum meira af þunglyndislyfjum en jafnöldrur þeirra í Danmörku. Þeim sem nota þunglyndislyf fjölgaði um 8.000 á Íslandi á milli áranna 2014 og 2016, um tæp 22%.

Hæstv. ráðherra. Er þetta ekki uggvænleg birtingarmynd? Er ekki ástæða til að leita markvissra og upplýstra úrræða?

Herra forseti. Landlæknisembættið telur mikla lyfjanotkun á Íslandi umhugsunarverða, ekki síst þunglyndislyfja, og telur að læknasamfélagið verði að koma með skýringar á þessum mun á Íslandi og öðrum löndum, hvort skortur sé á öðrum úrræðum en lyfjameðferð. Geðhjálp og fleiri hafa haldið því fram að mikil notkun kvíða- og þunglyndislyfja tengist lélegu aðgengi að geðheilbrigðiskerfinu. Nú er verið að skera upp herör. Markmiðið er að fyrir árslok 2019 verði gagnreynd úrræði á sviði geðheilbrigðisþjónustu til boða á 90% heilsugæslustöðva á landinu. Það verður að standast.

Við teljum okkur skynsemisverur. (Forseti hringir.) Gleymum ekki því mikilvægasta, fræðslunni, upplýsingunni, forvörnum og heilsueflandi aðgerðum, að vinna með viðhorfin.