149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:19]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa góðu og þörfu umræðu. Hann stingur oft á kýlum samfélagsins sem vert er að ræða hér í þessum sal og í samfélaginu. Ég tek undir þau sjónarmið sem hér koma fram, það þarf að efla meðferðarheimilin í landinu, SÁÁ, Vog, Hlaðgerðarkot og Krýsuvíkursamtökin. Þau gegna lykilhlutverki í því að taka unga fólkið til meðferðar sem ánetjast hefur þessum lyfjum sem við höfum rætt um í velferðarnefnd í þau tvö skipti sem við höfum fengið fulltrúa landlæknis til okkar. Það eru óhugnanlegar sögur sem þeir segja okkur um það sem er að gerast, þegar jafnvel karlmenn á mínu reki koma til lækna og ljúga út lyf sem þeir nota svo til að kaupa kynlíf hér í bænum, notfæra sér fíkn ungra kvenna. Það er ömurlegt að þannig skuli staðan vera og að samfélagið skuli búa við það að slíkir einstaklingar gangi hér um göturnar.

Það er mjög mikilvægt, eins og ráðherrann benti réttilega á áðan, að taka hart á þessum málum og af ákveðni. Þar gegna, eins og áður segir, meðferðarheimilin lykilhlutverki.

Um þessar mundir er framlag ríkisins til Sjúkrahússins Vogs á þessu ári að renna út. Næstu þrjá mánuði verður félagið og sjúkrahúsið að standa sjálft undir rekstrinum. Þessi góðu samtök og önnur hafa náð góðum árangri og þess vegna hvet ég okkur þingmenn sem notið hafa þjónustu þessara stofnana til að standa vörð um þær.