149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:21]
Horfa

Halldóra Mogensen (P):

Forseti. Dauðsföll vegna ofskömmtunar ópíóíða er vaxandi vandamál í hinum vestræna heimi, vandamál sem er ekki einungis þeirra sem ánetjast heldur okkar allra og þá sérstaklega okkar sem hér sitjum því að um stefnumótunarkrísu er að ræða. Krísan felst í því að einblína um of á að takmarka framboð á aðgengi lyfja sem hefur m.a. þær afleiðingar að hækka götuverðið. Á meðan eftirspurnin er til staðar munu slíkar aðgerðir þröngva einstaklingum út í skaðlegar aðstæður svo þeir geti aflað sér peninga fyrir dýrari lyfjum. Á meðan mikilvægt er að koma í veg fyrir að fólk ánetjist og misnoti ópíóíða þarf að gæta þess að takmarkað framboð á lyfseðilsskyldum ópíóíðalyfjum skapi ekki aukna eftirspurn eftir t.d. heróíni og opni þannig á annan mun hættulegri vanda.

Þeim löndum sem hafa nálgast þennan vanda á heildrænan hátt þar sem fíklar upplifa sig sem hluta af þjóðfélaginu en ekki útskúfaða glæpamenn vegnar mun betur í að stemma stigu við ofneyslu lyfja og dauðsföllum tengdum þeim. Það skiptir máli að einstaklingar sem eiga við fíknivanda að stríða hafi val um meðferðarleið og fái tækifæri til að ná bata á eigin forsendum. Sú nálgun felur í sér að við samþykkjum að ekki eru allir viljugir eða færir um að fara í afvötnun en að þeir fái þrátt fyrir það aðstoð og úrræði sem tryggja öryggi þeirra og möguleika á bata í framtíðinni.

Eitt mikilvægt skref sem við getum tekið strax til að bjarga lífum er að auka aðgengi fíkla að lyfinu Naloxon. Naloxon er mótefni sem snýr við áhrifum ópíóíða og kemur þannig í veg fyrir að fólk deyi úr ofskömmtum. Einnig mætti styrkja skaðaminnkunarúrræði á borð við Frú Ragnheiði mun betur en við gerum í dag.

En kjarninn er þessi: Við gerum ekki neitt gagn ef við breytum ekki hugsunarhætti okkar gagnvart þeim sem af einhverri ástæðu hafa orðið undir í lífinu. Við verðum öll að hætta að líta á fíkn sem glæp sem hægt er að stýra með boðum og bönnum. Fíkn er sjúkdómur sem á rætur sínar að rekja í félagslegum vanda og sem ber að nálgast á grundvelli mannúðar og valdeflingar en ekki refsinga og frelsissviptinga.