149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir að vera hér með okkur í dag og þakka málshefjanda sannarlega fyrir þessa umræðu sem verður aldrei of oft tekin, og auðvitað öllum þeim sem á undan hafa talað.

Það er náttúrlega bara ótrúlegt hvað við tökum utan um málefnið án þess að börnin okkar hætti að deyja hérna úti. Það má segja eins og hv. málshefjandi sagði, hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson, að við ættum ekki að kenna neinum einum um en það verður ekki fram hjá því horft að það er á höndum heilbrigðisráðherra, það er á höndum hennar, það er ekki flóknara en það, að koma til móts við þetta ástand sem við horfum upp á í samfélaginu.

Ég segi aðeins þetta: Ef þetta væru náttúruhamfarir, ef jafn óbærileg dánartíðni væri í samfélaginu vegna náttúruhamfara eins og vegna fíknisjúkdómanna sem við horfum upp á, væri ríkisstjórnin á neyðarfundi akkúrat núna. Ég vil leyfa mér að trúa því að ef sjúkdómurinn héti annað en fíknisjúkdómur myndum við taka málin fastari tökum.

Það er ekki nóg að tala um forvarnir, ég hef ekki orðið vör við þær forvarnir. Það er ekki nóg að tala um það að hér sé verið að smygla inn þessum lyfjum og þau séu komin í lausasölu á götuna. Hvar er þá vörnin á landamærunum til að koma í veg fyrir að lyfin flæði hérna inn? Það má sannarlega miklu betur gera ef duga skal.