149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:28]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Frú forseti. Mig langar að þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga málefni, sem hefur vissulega verið rætt á einn eða annan hátt áður. Ég held að við séum öll sammála um að við munum halda áfram að brýna hæstv. ráðherra til góðra verka í því máli, standa þétt upp við hana og halda áfram að hvetja hana.

Áhrif ofneyslu lyfseðilsskyldra lyfja og ráðstafanir vegna þeirra hafa verið mér og félögum mínum í Viðreisn afar hugleikin. Ég beindi fyrirspurn til sama ráðherra í janúar sl. um það hvernig eftirliti með svokölluðum eftirritunarskyldum lyfjum væri háttað og hvort mat hefði farið fram á áhrifum þeirra takmarkana á sérstaklega veika einstaklinga og einstaklinga sem stríða við fíknivanda, enda er það alveg viðbúið að ákvarðanir stjórnvalda í þeim efnum séu til þess fallnar að auka á hörkuna með lyfin á svörtum markaði ef ekki er gætt að hagsmunum allra.

Í hópi þeirra sem glíma við fíknisjúkdóma og mega alls ekki lenda á milli stafs og hurðar eru fangar. Þó að þeir séu í ýmsum skilningi í sérstökum áhættuhópi stendur þeim ekki til boða sama þjónusta og öðrum. Stjórnendur SÁÁ, sem hafa verið nefndir, eru meðvitaðir um nauðsyn þess að fangar fái meðferð við fíknisjúkdómi sínum eins og aðra heilbrigðisþjónustu. Það sem upp á vantar er samningur um verklag, faglegt mat og áætlanir sem uppfylla skilmerkilega lögin og kröfulýsingu eftirlitsaðila til að hægt sé að veita föngum slíka meðferð.

Ég vil því nýta þennan vettvang til að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðstafanir hennar í þessum málaflokki taki til vandamála og hagsmuna fanga sem glíma við fíkn í lyfseðilsskyld lyf og hvort þjónustan við þá hafi verið bætt í málaflokknum frá því að við áttum samtal um málið síðast.