149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:32]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Frú forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, og hæstv. ráðherra fyrir umræðuna. Mig langar að ræða tvennt í sambandi við hana. Í fyrra laginu er það mikilvægi forvarna og þá er ég að tala um forvarnir bæði í grunn- og framhaldsskólum landsins og jafnvel víðar. Þarna þarf ekki aðeins fræðslu um skaðsemi og aðrar leiðir til meðferðar við þeim vanda sem börn og ungmenni kunna að vera að glíma við, heldur þarf líka að benda á og hjálpa ungmennum að greina hvað eru „réttar upplýsingar“ og hverjar eru svokallaðar falskar upplýsingar, oft settar fram með slægum hætti á netinu af markaðsöflum sem eru á höttunum eftir nýjum kúnnum. Þetta getur verið býsna hættuleg framsetning oft og tíðum og erfitt fyrir ungmenni sem hafa ekki fengið leiðbeiningar hvernig eigi að greina á milli.

Hitt sem ég vil nefna eru lyfjaávísanir sem fólk verður sér úti um erlendis, þ.e. í gegnum erlenda lækna og leysir jafnvel út erlendis og flytur síðan heim sem árituð lyf. Okkur er sagt, a.m.k. í fjölmiðlum, að þarna sé töluverður vandi á ferðum og töluvert af lyfjum komið til landsins á þann hátt. Erfitt sé fyrir t.d. tollgæslu og aðra að bregðast við vegna þess að lyfin eru árituð. Þarna þyrfti í rauninni að eiga sér stað eins konar samtal á milli heilbrigðisyfirvalda, ekki einungis á Norðurlöndunum heldur kannski jafnvel í allri Evrópu, til að reyna á einhvern hátt að stemma stigu við því.