149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:39]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þetta er ein af þeim umræðum sem sérstök umræða mun aldrei ná utan um vegna þess að hún er of stutt eins og ég hef kvartað undan áður. Þetta er mjög viðamikið umræðuefni.

Mig langar til að nefna eitt sem er mörgum óljóst, sérstaklega þegar miklar tilfinningar eru í spilinu, en það er að gjörðir okkar geta stundum haft óæskilegar hliðarverkanir sem við áttum okkur ekki á fyrir fram eða gleymum að taka tillit til vegna þess að við erum svo upptekin við að bregðast við af eins miklum krafti og við mögulega getum. Þetta er í stuttu máli saga löggæslu í vímuefnamálum.

Það gleður mig að hafa ekki heyrt neinn hingað til tala um löggæslu sem eitthvert lykilhlutverk í þessu vegna þess að hún hefur þessi neikvæðu hliðaráhrif, þótt hún sé vissulega nauðsynleg. Þá langar mig líka sérstaklega að nefna að til eru úrræði sem hafa ekki, a.m.k. ekki mér vitanlega, neikvæðar hliðarverkanir, eins og t.d. forvarnir. Við getum bara gefið í þar. Sömuleiðis með meðferðarúrræði, við getum gefið í þar. Þegar kemur að því að stjórna framboði og eftirspurn hins vegar er hætt við svona hliðarverkunum; það að draga úr framboði á ópíóíðum getur gert að verkum að það verða færri nýir fíklar, sem er jákvætt, sem er markmið sem við eigum að stefna að, en það getur haft þau hliðaráhrif að hópurinn sem þegar er í neyslu verður frekar fyrir réttindatjóni, ýmist af hálfu yfirvalda eða annarra samborgara sinna, vegna þess að verðið hækkar eða ný og verri efni koma á markaðinn eða eitthvað því um líkt. Það eru dæmi um allt þetta og þetta er það sem fólkið sem vinnur við þetta mun segja, og segir. Við þurfum að passa okkur á þessu. Við þurfum að halda okkur fast við þær aðferðir sem við vitum að virka og þegar við sjáum fyrir svona hliðarverkanir eins og þær sem ég nefndi hér verðum við að bregðast við þeim með einhverjum hætti. Og í tilfelli þeirra sem nú þegar eiga við vandann að stríða er lausnin skaðaminnkun.

Skaðaminnkun felur í sér að aðstoða viðkomandi beinlínis, það hljómar mótsagnakennt, við það að neyta efnanna á sem skaðaminnstan máta, án þess að segja honum fyrir verkum, án þess að boða hann sjálfkrafa í meðferð, og leyfa neytandanum að gera þetta á sínum eigin forsendum.