149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:41]
Horfa

Halla Signý Kristjánsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda, hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni, fyrir að vekja athygli á þessum veruleika sem við stöndum frammi fyrir. Ég vil einnig þakka hæstv. heilbrigðisráðherra innleggið. Það er ánægjulegt að heyra að ráðherra er þegar búin að bregðast við með skipun starfshóps og að komnar eru tillögur til úrbóta. Það er vonandi að þeim verði ýtt úr vör sem allra fyrst.

Samkvæmt gagnagrunni landlæknisembættisins og Hagstofu Íslands um dánarmein Íslendinga hafa um 450 einstaklingar látist hér á landi vegna lyfjamisnotkunar. Síðasta áratuginn hafa að meðaltali 28 einstaklingar á ári dáið vegna þessa. Þetta er veruleikinn og vandinn er til staðar, þ.e. að læknar ávísa óeðlilegu magni af slíkum lyfjum. Verkefnið er stórt og landlæknisembættið á erfitt með að halda utan um það.

Lyfjanotkun Íslendinga er mikil miðað við nágrannalöndin og er áhyggjuefni. Þá má kannski velta fyrir sér ávísunarvenjum íslenskra lækna og hvernig hægt er að bregðast við því í heilbrigðiskerfinu hér heima. Íslenskir læknar hafa flestir hlotið framhaldsmenntun sína í útlöndum og standa því ekki að baki starfsbræðrum sínum í nágrannalöndunum hvað varðar kunnáttu og færni. Aftur á móti er ástæða til að ætla að stuðningur við góðar ávísunarvenjur lækna sé ekki sá sami hér á landi og í nágrannalöndunum.

Svíar hafa komið á fót lyfjanefndum í hverju landsþingi sem skipaðar eru bestu sérfræðingum lækna á sviði lyfjamála. Þessar nefndir fylgjast grannt með öllum tölum um lyfjanotkun og eru stöðugt í sambandi við veitendur heilbrigðisþjónustu og sérgreinafélög lækna um góðar ávísunarvenjur og hagnýta notkun lyfja. Fylgni heilbrigðisstofnana við góðar ávísunarvenjur hefur verið sett inn sem hvati þegar kemur að greiðslu fyrir þjónustuna. Það er því nauðsynlegt þegar kemur að mótun heilbrigðisstefnunnar hér á landi að þess sé gætt að tekið sé utan um þetta mál þar.