149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:44]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni fyrir þessa umræðu sem er mjög nauðsynleg. En ég ætla bara að benda á að ég er stálheppinn. Ef ég hefði verið með þetta fíknigen í mér, hvar væri ég þá staddur í dag? Fertugur var ég á biðlista eftir aðgerð, búinn að vera í rúmt ár með nálægt 20 töflur á dag af rótsterkum verkjalyfjum og töflur við aukaverkunum af þessum sterku verkjalyfjum. Fertugur með börn heima, horfandi á mig útúrdópaðan.

Í framhaldi af því, þegar ég var eiginlega búinn að gefast upp á þessu, spurði ég: Gæti ég ekki fengið aðgerð? Nei. Hvað var mér boðið? Morfín. Ég fór krókaleiðir til að fá aðgerðina. En ég spyr mig: Hversu margir eru í þessari aðstöðu? Hversu mörgum er haldið heima á biðlistum uppdópuðum með börn sem þurfa að horfa upp á þetta? Við verðum að átta okkur á því að þetta er fíkn. Þeir sem fá þetta, taka inn þessi sterku lyf, eru komnir í slæma stöðu um leið.

Það hefur sýnt sig í rannsóknum hér og líka erlendis að það gefur augaleið að við verðum að horfa á þetta frá öllum hliðum. Biðlistar, hvort sem það eru biðlistar eftir meðferð, biðlistar eftir aðgerðum; allt sem heitir biðlistar veldur vandræðum. Það veldur því að börn þurfa að horfa upp á viðkomandi einstaklinga, fjölskyldu, aðstandendur, í vonlausri aðstöðu. Við skulum horfa á tölur sem koma frá SÁÁ og mannfjöldaspá fyrir 15 til 64 ára. Árið 1976 voru 138 rúm, fjöldinn 135.000 manns. Í dag 138 rúm, nákvæmlega sama tala, en 232.000 manns. Við þurfum að spýta í og taka á þessu og það er nauðsynlegt að gera það núna strax.