149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:46]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og sérstaklega fagna ég því sem fram kom í máli hæstv. ráðherra, þ.e. þeim ráðstöfunum sem hún og hennar fólk hefur þegar gripið til. Ég geri mér grein fyrir því að þróunin í þessu máli er mjög hröð. Það er mjög erfitt að fanga hana. En ég tel samt óhætt eftir þessa umræðu, hvernig þingheimur hefur tekið undir hana, að segja að það sé næsta víst að ef ráðherra vill og þarf að grípa til ráðstafana sem kosta fé muni hún örugglega fá stuðning til þess í þessum sal, svo mikið er víst.

Mig langaði líka til þess að taka undir það sem nokkrir ræðumenn hafa nefnt hér, forvarnir. Það er mjög mikilvægt að þær byrji mjög snemma. Við höfum upplýsingar um það að aldur sprautufíkla færist neðar og neðar, aldur þeirra sem fara í harðari efni fer neðar og neðar. Það bendir til þess að í fyrsta lagi þurfum við að efla forvarnir, við þurfum að efla sálfræðiaðstoð í skólunum; sálfræðiaðstoðin þarf að ná alveg niður í grunnskóla þó að ég viti að hann sé ekki á hendi ríkisins. En við þurfum að grípa í þetta og þurfum líka að komast að því af hverju unga fólkið okkar er svona dapurt eins og fram kemur í rannsóknum sem gerðar hafa verið, að unga fólkið okkar sé kvíðið, þunglynt, dapurt í meira mæli en hér í nágrenninu. Við þurfum að komast að því af hverju þetta er og ráðast gegn því.

Ég ítreka þakkir mínar til ráðherra og hvet hana til góðra verka. Ég segi aftur: Ef hæstv. ráðherra þarf á stuðningi og aðstoð að halda við að koma nauðsynlegum aðgerðum í framkvæmd fullyrði ég að hún muni fá þann stuðning hér í þessum sal. Það fullyrði ég að lokinni þessari umræðu og þakka að öðru leyti fyrir hana.