149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

ópíóíðafaraldur og aðgerðir til að stemma stigu við honum.

[14:48]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir afar góða umræðu og góð ráð af ýmsu tagi. Ég fullvissa þingheim um að ég skrifaði kirfilega niður það sem fram fór hér og þær athugasemdir og ábendingar sem komu fram. Þó að ég fái ekki nægan tíma til þess að bregðast við því öllu er það allt saman á blaði.

Af því að hv. þingmaður spurði í fyrri ræðu sinni um Krýsuvík sérstaklega vil ég geta þess að það mál liggur þannig að í lok janúar barst ráðuneytinu bréf frá embætti landlæknis þar sem kemur fram að þjónustan sem veitt sé í Krýsuvík teljist ekki heilbrigðisþjónusta. Embætti landlæknis lagði til í bréfinu að hætt yrði að reka meðferðarheimilið sem heilbrigðisþjónustu og kannaður yrði sá möguleiki að reka þar áfram þjónustu sem félagslegt úrræði eða búsetuúrræði með stuðningi. Sú umræða er núna í gangi á milli mín og félagsmálaráðherra að ekki verði rof í þessari þjónustu heldur breytist skilgreiningin á henni en fjármagnið fylgi breyttri skilgreiningu. Ég vil fullvissa hv. þingmann um að ég mun fylgja því eftir að það verði niðurstaðan. Það er sameiginleg áhersla okkar ráðherra velferðarmála.

Mig langar að bregðast við öðru, margir þingmenn hafa nefnt áherslu á landsbyggðina. Mér finnst skipta mjög miklu máli að gæta vel að jafnræði þar. Hv. þm. Hanna Katrín Friðriksson nefndi málefni fanga. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga. Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir og hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson töluðu um skaðaminnkunaráherslurnar. Ég vil fullvissa þá þingmenn um að ég hef það í algjörum forgangi að gæta alltaf að þeim þáttum og það er mér sérstök gleði að geta þess að við erum með 50 milljónir sérmerktar fyrir neyslurýmisúrræði núna á næsta ári í samráði við borgina og Rauða krossinn. Það er í góðum farvegi.

Hv. þm. Helga Vala Helgadóttir spurði líka sérstaklega um lyfið Naloxon. Ég held að full ástæða sé til að kanna hvort hægt sé að bæta aðgengi að því lyfi með öllum þeim fyrirvörum sem það felur í sér, en það er jafnframt svo að í ráðuneytinu er verið að svara skriflegri fyrirspurn um það mál. (Forseti hringir.) Ég vænti þess að upplýsingarnar komi betur fram.

Svo vil ég segja það að ég er tilbúin (Forseti hringir.) til að ræða þessi mál ítrekað í velferðarnefnd þannig að við höfum jafnvel lengri tíma (Forseti hringir.) til þess að klára umræðuna og hæstv. forseti lendi ekki í þeirri klemmu sem hann er í akkúrat núna.