149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

77. mál
[14:51]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna laga nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Frumvarpið felur í sér lágmarksbreytingar sem gera þarf á lögum sem heyra undir samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið til að ná því markmiði sem felst í nýjum lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga sem samþykkt voru á þinginu í sumar. Breytingarnar eru nauðsynlegar til að vinnsla persónuupplýsinga hjá þeim stofnunum sem getið er í frumvarpi þessu byggi á viðhlítandi lagastoð. Það skal sérstaklega tekið fram að ekki er um útvíkkun á núverandi verkefnum stofnananna að ræða og er mikilvægt að árétta það.

Frumvarpið varðar breytingu á níu lagabálkum. Í fyrsta lagi eru það lög um Innheimtustofnun sveitarfélaga, nr. 54/1971, með síðari breytingum, svo lög um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012, með síðari breytingum, lög um þjóðskrá og almannaskráningu, nr. 54/1962, með síðari breytingum, umferðarlög, nr. 50/1987, með síðari breytingum, lög um skráningu skipa, nr. 115/1985, með síðari breytingum, lög um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, lög um Vegagerðina, framkvæmdastofnun samgöngumála, nr. 120/2012, með síðari breytingum, lög um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og lög um Póst- og fjarskiptastofnun, nr. 69/2003, með síðari breytingum.

Virðulegi forseti. Ég tel ekki rétt að reifa hvert og eitt ákvæði frumvarpsins heldur fjalla ég um þau saman með almennum hætti. Rétt er í byrjun að greina hvað persónuupplýsingar eru. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að með persónuupplýsingum sé átt við sérhverjar upplýsingar um persónugreindan eða persónugreinanlegan einstakling. Einstaklingur telst persónugreinanlegur ef unnt er að persónugreina hann, beint eða óbeint, svo sem með tilvísun í auðkenni eins og nafn, kennitölu, staðsetningargögn, netauðkenni eða einn eða fleiri þætti sem einkenna hann í líkamlegu, lífeðlisfræðilegu, erfðafræðilegu, andlegu, efnalegu, menningarlegu eða félagslegu tilliti.

Ákvæði frumvarpsins eiga það sameiginlegt að kveða nánar á um heimild til vinnslu persónuupplýsinga en gert er í gildandi lögum, með öðrum orðum er verið að skerpa á lagastoð gildandi laga. Þannig kemur fram í hverju ákvæði fyrir sig hvers konar upplýsingum heimilt er að safna, skrá, miðla og fleira og í hvaða tilgangi upplýsingunum er safnað.

Í athugasemdum með einstökum greinum frumvarpsins er svo að finna nánari útlistun og útskýringar á hverri grein. Þannig er t.d. útskýrt nánar hvers vegna viðkomandi stofnun þarf að hafa heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga. Svo tekið sé dæmi úr frumvarpinu þarf Innheimtustofnun sveitarfélaga heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, eins og heilsufars, fjárhagserfiðleika og félagslegra erfiðleika. Það er tilkomið vegna heimildar stjórnar Innheimtustofnunar sveitarfélaga samkvæmt 5. gr. laga um Innheimtustofnun sveitarfélaga til að gera tímabundna samninga sem kveða á um greiðslu skuldara á lægri upphæð en til fellur mánaðarlega þegar til skuldarinnar hefur verið stofnað sökum félagslegra erfiðleika skuldara, svo sem af heilsufarsástæðum, ónógum tekjum, skertri starfsorku og fleira.

Ef við tökum annað dæmi úr frumvarpinu hefur Póst- og fjarskiptastofnun enga þörf á heimild til vinnslu viðkvæmra persónuupplýsinga, en þarf engu að síður heimild til vinnslu persónuupplýsinga, svo sem nafns, kennitölu, IP-tölu og fleira.

Annað sem ákvæði frumvarpsins eiga sameiginlegt er að gerð er sú krafa að öflun umræddra persónuupplýsinga sé háð því að hún sé nauðsynleg í þágu lögbundinnar starfsemi stofnunarinnar. Svo tekið sé dæmi úr frumvarpinu er lagt til að Vegagerðinni verði heimilt að viðhafa rafræna vöktun eða taka myndir með reglulegu millibili á þjóðvegum landsins í þeim tilgangi að skila auknu samgönguöryggi. Þá kemur fram að stofnuninni verði heimilt að miðla upplýsingunum sem þannig er aflað til vegfarenda með rafrænum hætti að uppfylltum skilyrðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Ákvæði þetta er tilkomið þar sem Vegagerðinni ber samkvæmt lögum að annast upplýsingamiðlun um samgöngumál og stuðla að samgönguöryggi. Tilgangurinn er því skýr.

Þess ber að geta að um öflun persónuupplýsinga gildir almennt að við vinnsluna skuli gætt meðalhófs og þarf hún að vera í samræmi við þann tilgang sem kveðið er á um í viðkomandi ákvæði. Ekki er heimilt að vinna upplýsingar í öðrum eða ósamrýmanlegum tilgangi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir efni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni þessari umræðu vísað annars vegar til hv. umhverfis- og samgöngunefndar og hins vegar til hv. allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.