149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

vaktstöð siglinga.

81. mál
[15:04]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum.

Með þessu frumvarpi eru lagðar til breytingar á ákvæðum um hafnsögu og réttindi og skyldur leiðsögumanna. Frumvarpið er afrakstur sérstakrar skoðunar ráðuneytisins á lagagrundvelli hafnsögu. Íslensk lög eru tiltölulega fáorð um hafnsögu þrátt fyrir þá mikilvægu hagsmuni sem henni er ætlað að vernda, þ.e. öruggar siglingar og vernd gegn mengun hafs og stranda. Í því ljósi er nauðsynlegt að mælt sé með skýrari hætti fyrir um hafnsögu og um heimild hafnarstjórna til að mæla fyrir um hafnsöguskyldu innan sinna hafnarsvæða.

Leiðsögumönnum sem sinna hafnsögu eru falin ýmis réttindi og bera jafnframt skyldur við störf sín. Í hafnarreglugerðum hefur verið mælt fyrir um hlutverk leiðsögumanna við hafnsögu, en að mati ráðuneytisins mætti skerpa á lagastoðinni með skýrari hætti.

Í fyrsta lagi er lagt til að bætt verði við ákvæði um að leiðsögumanni sé óheimilt að yfirgefa skip fyrr en það er komið á áfangastað eða með leyfi skipstjóra.

Í öðru lagi er lagt til að mælt verði fyrir um skyldu skipstjóra til að sjá leiðsögumanni fyrir fæði meðan hann dvelur um borð.

Í þriðja lagi er lagt til að leiðsögumaður hafi heimild til að banna hverjum þeim sem ekki á lögmætt erindi að koma um borð í skip meðan hann hefur ekki lokið starfi sínu.

Að öðru leyti vil ég vísa til greinargerðar með frumvarpinu. Ég vek sérstaka athygli á bls. 2 í meginefni um svona sögulegan fróðleik um hafnsögu á Íslandi.

Virðulegi forseti. Ég hef nú gert grein fyrir helstu efnisatriðum þessa frumvarps og legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hæstv. umhverfis- og samgöngunefndar og 2. umr.