149. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2018.

vaktstöð siglinga.

81. mál
[15:10]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Mig langaði að koma aðeins inn á reglugerð frá 1998, þ.e. núverandi reglugerð, í tengslum við frumvarp um leiðsögu skipa. Þar kemur fram í 7. gr. að hafn- og leiðsögumenn þurfi einungis að vera handhafar 2. stigs skipstjórnarréttinda. Ekki eru gerðar neinar kröfur um starfsreynslu í reglugerðinni. Benda má á að 2. stig Stýrimannaskólans eða réttindi frá Stýrimannaskólanum veita einungis réttindi sem undirstýrimaður á kaup- og skemmtiferðaskipum. Í þessari reglugerð er engin krafa gerð um að hafnsögumenn séu með alþjóðleg réttindi, svokölluð STCW-réttindi. Starfið krefst þess að viðkomandi hafi fullan skilning og reynslu af stjórntökum skipa þar sem hafnsögumaður er mjög oft ráðgjafi skipstjóra um hvernig stjórntökum skal háttað.

Við þekkjum að skipum sem heimsækja landið hefur fjölgað mjög á undanförnum árum og þau fara stækkandi. Má þar nefna sérstaklega skemmtiferðaskipin og einnig farmskip fyrir álverin. Ég held að því sé mjög æskilegt, herra forseti, að hafnsögumenn hafi reynslu og réttindi miðað við stærri skip. Það má nefna að víða er gerð sú krafa að hafnsögumenn hafi starfað sem skipstjórar eða yfirstýrimenn á stærri skipum. Það eru t.d. kröfur sem gerðar eru í Bretlandi, sem er nú okkar nágrannaþjóð og þekkt siglingaþjóð.

Í ljósi þess sem ég nefndi, sérstaklega varðandi auknar skipakomur, held ég að full ástæða sé til þess að í tengslum við þessa umræðu, þetta frumvarp og í nefndinni, verði það skoðað hvort ekki sé rétt að breyta þessari reglugerð. Hún er síðan 1998. Það hefur mjög margt breyst á þeim tíma. Ég hefði talið mjög æskilegt að það yrði skoðað í samhengi við þetta mál.