149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Teitur Björn Einarsson (S):

Herra forseti. Það bar svo við í gær að hæstv. sjávarútvegsráðherra lagði fram frumvarp til Alþingis um breytt fyrirkomulag á veiðigjöldum. Ég vænti þess að það frumvarp komi þá hér til 1. umr. von bráðar og ég vænti þess að sú umræða í þingsal verði gagnleg og menn einbeiti sér að því að ná skynsamlegri niðurstöðu um þetta fyrirkomulag.

En þetta nefni ég af því tilefni að í morgun var haldinn sjávarútvegsdagurinn með yfirskriftinni Lítill fiskur í stórri tjörn. Það er ágætisyfirskrift til að endurspegla þann veruleika að íslenskur sjávarútvegur á í gríðarlega harðri samkeppni á alþjóðavettvangi. 98% af öllum fiskafurðum á Íslandi eru seldar á erlendum mörkuðum. Það var mjög fróðlegt erindi sem þar kom fram um það atriði.

En það var annað erindi sem var hvað athyglisverðast á þessum fundi í morgun. Það var erindi frá endurskoðanda Deloitte endurskoðendaskrifstofu um afkomu íslensks sjávarútvegs á árinu 2017. Þar kemur fram sú mynd sem við blasir og við höfum áður rætt hér í þessum þingsal að tekjur sjávarútvegsins á árinu 2017 eru að dragast saman um 10% frá árinu 2016. Framleiðnin dregst saman á árinu 2017 um nær 20% frá árinu 2016 og hagnaður í sjávarútvegi dregst saman um allt að 50% á þessum árum. Þetta er sú staða sem við blasir og þetta hlýtur að vera innlegg í umræðuna þegar við tökum þetta fyrirkomulag á veiðigjöldum hér til umræðu.

Við viljum að sjávarútvegurinn sé samkeppnishæfur á alþjóðlegum vettvangi. Þá hlýtur þetta að skipta máli. Við viljum að sjávarútvegurinn dafni um land allt og ólík fyrirtæki, stór sem smá, dafni um land allt.