149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það er hluti af störfum okkar hér á þingi að fylgjast með og fá upplýsingar frá þingforseta, forsætisráðherra, ríkisstjórninni um það hvernig málum miðar áfram, hvað það er sem við erum að fara að ræða og hvað það er sem við þurfum að taka ákvarðanir um. Mjög oft verða þingstörfin leiðinleg ef misskilningur er hvað þetta varðar, hvað var samþykkt og hvað var gert, þannig að allir hlaupa hér upp í fundarstjórn forseta og svo er hringlað í því heillengi. Þetta er ekki gott ásýndar en þetta er nauðsynlegt ef ekki er brugðist við.

Ég vil sérstaklega þakka hæstv. forsætisráðherra Katrínu Jakobsdóttur fyrir viðleitni hennar til að bregðast við, ekki bara taka við því búi sem hún hefur fengið og gera hlutina eins og þeir hafa alltaf verið gerðir heldur að hlusta á þetta og bregðast við. Hún hefur nú fundað tvisvar með forsætisnefnd frá því að hún tók við, fyrst í vor og aftur nú fyrr í mánuðinum og svo var frábær fundur sem við fengum sem erum ábyrg fyrir starfsáætlun Alþingis í forsætisnefnd, sem berum ábyrgð á starfsáætlun nefndanna, formenn nefndanna og svo þingflokksformenn sem eru ábyrgir fyrir nærdagskránni. Við fengum fund í Ráðherrabústaðnum um það hvernig ríkisstjórnin er að vinna að málunum, hvernig hún sem forsætisráðherra, yfir Stjórnarráðinu, heldur utan um það hvernig málin fara áfram þannig að við í þinginu getum farið að fá betri upplýsingar um þetta og skipulagt starf okkar betur. Þetta eru akkúrat réttu viðbrögðin við kröfum um meiri upplýsingar og stuðlar að því að við getum unnið betur saman. Kærar þakkir fyrir það.

Hæstv. þingforseti, Steingrímur J. Sigfússon, hitti þingflokk Pírata hér áðan og við ræddum ákveðin álitamál sem verið hafa uppi varðandi ákvarðanir og upplýsingagjöf. Þar kom mjög skýrt fram lausnamiðuð nálgun í því hvernig við gætum gengið betur upplýst inn á fundi til að geta tekið ákvarðanir og þurfum ekki að vera óviss um það eftir á og hlaupa síðan upp í ræðustól og rífast um það. Þetta eru fagleg vinnubrögð. Takk.