149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:27]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Herra forseti. Opinberar fjárfestingar og opinberar framkvæmdir skipta okkur öll miklu máli. Við erum flest sammála í megindráttum um að greiða fyrir þessa hluti úr sameiginlegum sjóðum okkar. Það er því sanngjörn krafa að vel takist til í þessum efnum og að við stjórnmálamenn sýnum ábyrgð og ráðdeild þegar kemur að því að setja ramma um slíkar framkvæmdir.

Vel skal vanda það sem lengi á að standa. Um það eigum við að geta staðið saman, óháð pólitískum flokkadráttum. Því miður eigum við allt of mikið af dæmum um fjárfestingar og framkvæmdir sem ekki hafa staðist þær forsendur sem lagðar voru til grundvallar. Nýleg dæmi eru Vaðlaheiðargöng sem átti að taka í notkun haustið 2016 og hafa ekki enn verið opnuð, þau áttu að kosta 9 milljarða en munu kosta um helmingi meira, og nýtt sjúkrahótel við Landspítalann sem átti að opna vorið 2017 en hefur ekki enn verið opnað og fer sömuleiðis fram úr kostnaðaráætlun.

Í viðtali við Morgunblaðið, þann 30. ágúst sl., sagði hæstv. fjármálaráðherra um Vaðlaheiðargöngin:

„Þetta eru auðvitað gríðarlega mikil vonbrigði, að þessi framkvæmd verði mörgum milljörðum dýrari, en áætlanir gerðu ráð fyrir í upphafi.“

Ég tek undir orð hæstv. fjármálaráðherra. Við þurfum hins vegar að gera meira en lýsa yfir vonbrigðum. Við verðum að grípa í taumana og gera betur. Að frumkvæði mínu og Viðreisnar samþykkti Alþingi einu hljóði þingsályktun um tryggingu gæða, hagkvæmni og skilvirkni opinberra fjárfestinga. Rétt er að við þingmenn hvetjum hæstv. fjármálaráðherra til þess að vinda bráðan bug að því að vinna samkvæmt þessari mikilvægu ályktun og að við hjálpum til (Forseti hringir.) við að afla þess litla fjármagns, samanborið við ávinninginn, til þess að geta hrint af stað þessari umbótavinnu