149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg):

Virðulegi forseti. Það gerðist fyrir 35 árum að mannkynið fór á þann stað að hafa sennilega sjaldan eða aldrei verið nær gereyðingu, þann 26. september árið 1983. Þann dag gaf tölvukerfi sovéska hersins til kynna að Bandaríkin hefðu gert árás á landið. Ef ekki hefði komið til ákvörðun hermanns sem ákvað að taka ekki mark á tilkynningunni, sem reyndist vera vegna tölvubilunar, hefði kjarnorkustyrjöld brotist út.

Enn erum við hér 35 árum síðar og búum við það að kjarnavopn eru stöðug ógn við líf og tilveru jarðarbúa. Þá gildir engu hvort til beitingar þeirra kynni að koma af gáleysi eða yfirvegaðri ákvörðun. Það er þess vegna sérstaklega mikilvægt að öll ríki heims, allar ríkisstjórnir heims, taki höndum saman og reyni að koma í veg fyrir tilvist þessara vopna sem geta eytt öllu lífi á jörðinni.

ICAN eru samtök sem eru handhafar friðarverðlauna Nóbels sem hafa tileinkað daginn í dag, 26. september, baráttunni fyrir samþykkt alþjóðlegs banns við kjarnorkuvopnum. Fulltrúar samtakanna ICAN munu koma hingað til lands í næsta mánuði í boði hæstv. forsætisráðherra Katrínar Jakobsdóttur í tengslum við afvopnunarráðstefnu NATO. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við öll hér inni og eins ríkisstjórn Íslands reynum að byggja brú á milli þeirra ríkja sem eru aðildarríki að NATO sem hafa markvisst staðið í vegi fyrir því að undirrita þennan sáttmála ICAN og svo ICAN. Það er okkur öllum í hag að sem flest ríki undirriti þennan sáttmála friðarverðlaunahafa Nóbels, ICAN.