149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

störf þingsins.

[15:34]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Í dag kem ég hér til að fagna sérstaklega aðgerðum stjórnvalda til að efla íslenskt mál til framtíðar. Skýr framtíðarsýn á stöðu íslenskunnar og stuðningur við hana er grundvöllur fyrir árangursríkri menntastefnu og um leið órjúfanlegur hluti af menntastefnu. Íslenskan er grunnur að virkri lýðræðislegri umræðu, viðhaldi þekkingar, viðhaldi og þróun menningar og svo mörgu öðru.

Nýlega kynnti Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, fjölda aðgerða sem miði að því að styrkja stöðu íslenskrar tungu. Aðgerðirnar styrkja ólíkar hliðar þjóðlífsins, en markmið þeirra allra ber að sama brunni; að tryggja að íslenska verði áfram notuð á öllum sviðum íslensks samfélags. Sumar aðgerðirnar hafa nú þegar fengið talsverða opinbera umfjöllun, einkum aðgerðir til stuðnings einkareknum fjölmiðlum og endurgreiðslukerfi til stuðnings íslenskri bókaútgáfu.

En það er fleira á döfinni, m.a. er von á þingsályktunartillögu í 22 liðum um íslensku sem þjóðtungu. Þar er eitt af þremur meginmarkmiðum að efla íslenskukennslu. Hér ætla ég að nefna nokkur verkefni sem falla undir það markmið. Fyrst er að telja að áfram verður unnið að ýmsum verkefnum sem tengjast þjóðarsáttmála um læsi. Þá er áhersla á að þeir sem hafa annað móðurmál en íslensku, börn jafnt sem fullorðnir, fái viðeigandi og jafngild tækifæri til íslenskunáms og stuðning í samræmi við þarfir hvers og eins. Undir það heyrir að unninn verði hæfnirammi og unnið að gerð námsefnis sem hentar þessum hópi. Einnig verður opnað á aðgengi að orða- og málfarssöfnum á netinu og stutt við starfsþróun kennara. (Forseti hringir.)

Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu góður samhljómur er milli þessara aðgerða og menntastefnu Framsóknarflokksins sem mikil vinna var lögð í á síðasta ári.