149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[15:37]
Horfa

Flm. (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu um aðgerðaáætlun fyrir árið 2019–2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna. Yfirskrift tillögunnar hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera tímasetta og fjármagnaða aðgerðaáætlun til fjögurra ára, fyrir árin 2019–2022, til að styrkja stöðu barna og ungmenna og fjölskyldna þeirra hér á landi. Aðgerðirnar byggist m.a. á rétti barna eins og hann er skilgreindur í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.“

Fyrst er í tillögunni fjallað um almennar aðgerðir og samráð og þar segir:

Þriðja valfrjálsa bókun við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem við köllum barnasáttmála, verði lögfest hér á landi á árinu 2019 að undangengnu átaki þar sem stjórnvöld og úrskurðaraðilar fá fræðslu um kröfur barnasáttmálans er varða þjónustu við börn. Viðeigandi ráðstafanir verði gerðar í kjölfarið, m.a. nauðsynlegar lagabreytingar. Útbúið verði barnvænt kynningarefni og kynning á framkvæmd bókunarinnar hér á landi gerð aðgengileg.

Til að tryggja samræmingu og eftirfylgni aðgerða í þágu barna og barnafjölskyldna á vettvangi Stjórnarráðsins og sveitarfélaga verði skipaður samráðshópur fulltrúa ráðherra félags- og jafnréttismála, heilbrigðismála, mennta- og menningarmála, dómsmála, samgöngu- og sveitarstjórnarmála og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Formaður hópsins verði skipaður af félags- og jafnréttismálaráðherra. Samráðshópurinn yfirfari tilmæli barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna frá janúar 2012 varðandi framkvæmd barnasáttmálans á Íslandi, tilmæli ráðherranefndar Evrópuráðsins frá 2011 til aðildarríkja um réttindi barna og barnvæna félagsþjónustu við börn og fjölskyldur og Evrópuráðssamning um vernd barna gegn kynferðislegri misbeitingu og kynferðislegri misnotkun. Einnig yfirfari samráðshópurinn skýrslu umboðsmanns barna frá árinu 2017 um helstu áhyggjuefni ásamt nýlegum skýrslum umboðsmanns barna. Samráðshópurinn geri tillögur um með hvaða hætti skuli bregðast við þessum alþjóðasamþykktum og áhyggjuefnum til að treysta stöðu barna og styrkja foreldra í uppeldishlutverki sínu.

Jafnframt verði á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga mótaðar tillögur um aðgerðir til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Einkum verði litið til þess hvernig tryggja megi að fyrirtæki setji sér fjölskyldustefnu, stytti vinnutíma og geri vinnutíma sveigjanlegri og hvernig unnt sé að tryggja að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum, t.d. vegna veikinda þeirra eða fötlunar. Í því skyni að tryggja hag og réttindi barna og ungmenna sem best verði unnið að framkvæmd einstakra verkefna á vegum viðkomandi ráðuneyta. Verkefni skulu fjármögnuð og tryggður verði nægilegur mannafli og nauðsynleg gögn svo að markmiðum verði náð. Verkefnin verði árangursmetin reglulega og byggð sérstaklega á aðgerðum sem eru tilgreindar í sjö köflum í tillögunni.

Aðgerðir sem bæta afkomu barnafjölskyldna, aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðningur í uppeldisstarfi, almennar forvarnaaðgerðir, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna, aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarerfiðleika og í vímuefnavanda. Aðgerðir er vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum og aðgerðir í þágu barna innflytjenda.

Alls eru aðgerðirnar taldar upp í 49 liðum og allt of langt mál að fara yfir þær allar hér en það er von mín að hv. velferðarnefnd fari vel yfir málin, kalli eftir umsögnum, vinni nefndarálit og búi tillöguna undir síðari umr. og atkvæðagreiðslu í þinginu.

Þessa tillögu má ekki salta í nefnd, eins og algengt er að gerist með tillögur frá stjórnarandstöðu. Þeirri frómu ósk kem ég hér á framfæri við hv. velferðarnefnd að þessi tillaga verði tekin til meðferðar og útbúin undir samþykkt í þingsal.

Í greinargerð með tillögunni er gerð grein fyrir helstu atriði kaflanna sem eru þessi:

1. Á samráðsvettvangi ríkisins, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaga verði mótaðar tillögur til að samræma vinnu og fjölskylduábyrgð og þjónustu við barnafjölskyldur. Gert er ráð fyrir að tillögurnar varði m.a. styttri og sveigjanlegri vinnutíma og hvernig tryggja megi að foreldrar geti betur sinnt börnum sínum vegna veikinda þeirra eða fötlunar, eins og áður sagði.

2. Flutt verði frumvarp um lengingu fæðingarorlofs í tólf mánuði.

3. Afkoma barnafjölskyldna verði bætt, m.a. með því að hækka barnabætur og sjá til þess að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Nemendur í framhaldsskólum fái stuðning til kaupa á námsgögnum og niðurgreiddan hádegismat og að aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi verði bætt, ekki síst þeirra sem búa við veikan fjárhag. Umgengnisforeldrum verði tryggður stuðningur til framfærslu og umgengni við börn sín.

4. Sérstaklega verði hugað að stuðningi við börn innflytjenda í skólakerfinu og í heilbrigðiskerfinu.

5. Aukinn verði stuðningur við langveik börn og börn með hegðunarvandamál, geðraskanir og þroskafrávik.

6. Þegar í stað verði gripið til aðgerða til að vinna á biðlistum barna og ungmenna sem bíða eftir greiningu hjá barna- og unglingageðdeild Landspítalans og Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.

7. Fjölbreytni í meðferðarúrræðum fyrir börn með hegðunar- og vímuefnavanda verða aukin.

8. Unnið skal að því að foreldrum standi til boða uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni óháð búsetu.

9. Áhersla verði lögð á víðtækar forvarnir, svo sem heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu, m.a. með því að auka hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna.

10. Forvarnastarf gegn hvers kyns ofbeldi og vanrækslu verði eflt og stuðningur jafnframt aukinn við fjölskyldur ungmenna sem eiga í vanda vegna vímuefnaneyslu.

Í kaflanum um aðgerðir sem bæta afkomu barnafjölskyldna er kveðið á um aðgerðir sem eiga sérstaklega að beinast að bættri fjárhagsafkomu fjölskyldna. Í þeim kafla er lagt til að barnabætur hækki og að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Er miðað við að það barnabótakerfi sem er í öðrum norrænum ríkjum verði nálgast í skrefum og að staða umgengnisforeldra verði bætt. Einnig er lagt til að nemendur í framhaldsskólum njóti stuðnings til kaupa á bókum og öðrum námsgögnum og að hádegisverður verði niðurgreiddur. Fyrsta skrefið miðist við að nemendur beri helming þess kostnaðar.

Að lokum er í kaflanum fjallað um nauðsynlega upplýsingaöflun sem nýta skal í markvissri vinnu stjórnvalda til að bæta hag og skilgreina mörk sem segja til um hvenær grípa skuli til aðgerða. Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna, ungmenna og foreldra og stuðning í uppeldisstarfi er m.a. rætt um lengingu fæðingarorlofs í 12 mánuði og uppeldisráðgjöf og þjálfun í foreldrafærni á sérstökum gjaldfrjálsum námskeiðum um allt land sem hæfa mismunandi æviskeiðum í lífi barnsins og fræðsla til foreldra barna með sérþarfir og langveikra barna.

Lagt er til að á samráðsvettvangi ríkis og sveitarfélaga verði fjallað um útfærslu slíkra námskeiða. Starfsfólk í ungbarnaeftirliti, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla eigi kost á þjálfun til þess að geta miðlað þekkingu til foreldra í uppeldismálum og þar með talið ráðgjöf vegna hegðunarerfiðleika barna. Komið verði á fót barnahúsi sem vinni með börnum foreldra sem eiga í forsjárdeilum, börnum sem búa við heimilisofbeldi og börnum sem leitað hafa eftir alþjóðlegri vernd. Þar verði jafnframt boðið upp á barnamiðaða fjölskylduráðgjöf.

Einnig er lögð áhersla á að dómstólar og sýslumenn virði ávallt rétt barna til að tjá sig áður en ákvarðanir er varða líf þeirra eru teknar og sifjadeildir sýslumannsembættanna verði efldar.

Í kaflanum um almennar forvarnaaðgerðir er áhersla lögð á heilsueflingu barna og ungmenna í samfélaginu m.a. með því að bæta hreyfingu og bæta næringu og fæðuval barna og ungmenna og að sérstaklega verið hugað að fræðslu um offitu og forvarnir gegn ofþyngd og bættum úrræðum til meðferðar.

Mikilvægt er að stuðlað verði með forvörnum að ávana- og vímuefnalausu umhverfi barna og ungmenna. Ungmennum verði veitt viðeigandi fræðsla um áhrif og afleiðingar áfengisdrykkju ekki síður en ólöglegra vímuefna. Þá verði veitt fræðsla í skólum um lyfjanotkun sem er ávanabindandi og hættuleg, ásamt skaðsemi tóbaksreykinga og notkunar rafrettna.

Sífellt fleiri börn og ungmenni þjást af kvíða og vanlíðan og nauðsynlegt er að aðgengi að sálfræðingum á öllum skólastigum verði bætt til muna. Sérstök áhersla verði lögð á almennar forvarnir og fræðslu í samfélaginu hvað varðar andlega og félagslega líðan, ofbeldi og vanrækslu. Þetta verði gert með því að leggja aukna áherslu á geðrækt, m.a. hollar tómstundir fyrir öll börn og uppbyggilega nýtingu frítíma og samveru fjölskyldunnar. Jafna þarf aðgengi allra barna og ungmenna að íþróttum og félagsstarfi, ekki síst þeirra einstaklinga sem búa við veikan fjárhag.

Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik og langveikra barna er forgangsmál að vinna á biðlistum á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins og barna- og unglingageðdeild Landspítalans með aðgerðum í þágu barna og ungmenna með geðraskanir og þroskafrávik. Leitað verði leiða til að efla sérhæft samstarf á milli ólíkra þjónustuaðila og stjórnsýslustiga og auka samvinnu allra þeirra sem koma að því að veita eða nota þessa þjónustu.

Á grundvelli úttektarinnar á skipulagi fyrsta stigs heilbrigðisþjónustu við börn og ungmenni með geð- og hegðunarraskanir á mismunandi landsvæðum verði teknar ákvarðanir um skipulagt samstarf þar sem skýrt verður kveðið á um ábyrgð veitenda þjónustunnar gagnvart notendum hennar. Lögð er áhersla á að vinna á biðlistum með þjónustu barna- og unglingageðdeildar Landspítalans og jafnframt lögð áhersla á að efla eftirfylgni með börnum og ungmennum með geðraskanir á vegum heilsugæslunnar og skóla- og félagsþjónustu sveitarfélaga að lokinni útskrift af göngu- eða legudeild barna- og unglingageðdeildar Landspítalans.

Börn með geð- og hegðunarraskanir þurfa oft og tíðum þjónustu úr mismunandi þjónustukerfum og er þá bæði átt við þjónustu á ábyrgð ríkisins og á ábyrgð sveitarfélaga. Það er mikilvægt að eflt verði upplýsingaflæði og aukin samvinna milli þessara aðila til þess að samfella náist og sem bestur árangur í þjónustu við þennan hóp barna og fjölskyldna þeirra náist.

Mikilvægt er að nýta og efla þær leiðir sem flýtt geta fyrir greiningu og þar með tryggja þá þjónustu sem börn og ungmenni eiga rétt á, á öllum skólastigum og á vegum félagsþjónustu og sveitarfélaga um allt land.

Í kaflanum um aðgerðir í þágu barna og ungmenna með hegðunarvanda og vímuefnavanda er talað um aukna fjölbreytni og að foreldrunum sé veitt aðstoð og að gripið sé inn í hratt svo forða megi miklum veikindum og jafnvel dauða ungmenna sem eru í þessum vanda.

Í kaflanum um aðgerðir til að vernda börn og ungmenni gegn heimilisofbeldi og kynferðisbrotum er fjallað um aðgerðir sem stuðla að öflugri vernd barna gegn slíku ofbeldi og sérstaklega þarf að huga að börnum í áhættuhópum, t.d. vegna fötlunar, barna á stofnunum eða þeirra sem búa við veika félagslega stöðu. Sérstaklega er mikilvægt að barnavernd, lögreglan og heilsugæslan vinni sem teymi að málefnum barna sem orðið hafa fyrir hvers kyns ofbeldi. Í því skyni er lagt til að komið verði á miðlægum gagnagrunni sem auðveldar slíkum teymum um allt land að grípa fyrr til aðgerða og verja börn gegn ofbeldi. Einnig að góð kynning fari fram á tilkynningarskyldu þeirra sem vinna með börnum og tilkynningarskyldu almennings, ásamt því að auðvelda nafnlausar tilkynningar hvort sem er fagmanna eða almennings.

Sjá þarf til þess að löggæslan nái einnig til þess sem á sér stað á veraldarvefnum. Taka þarf til skoðunar lagaheimildir er varða beitingu öryggisráðstafana eftir afplánun refsidóma gagnvart kynferðisbrotamönnum með barnagirnd á háu stigi. Þá er gert ráð fyrir því að starfsemi Barnahúss sem þverfaglega miðstöð vegna kynferðisbrota á börnum allt til 18 ára aldurs verði styrkt, einkum að því er varðar skýrslutöku á börnum og meðferð fyrir fjölskyldur þar sem hvers kyns ofbeldi hefur verið beitt.

Síðasti kaflinn er um aðgerðir í þágu barna innflytjenda. Þar er lagt til að stjórnvöld, atvinnulíf og samfélagið allt taki höndum saman um að berjast gegn fordómum. Kaflinn fjallar einnig um aðgerðir bæði almennar og sértækar til að tryggja fólki af erlendum uppruna sem flytur hingað til lands góðar móttökur og auðvelda því að taka þátt í íslensku samfélagi um leið og það ræktar sína eigin menningu og móðurmál. Órjúfanlegur þáttur í því starfi er að styrkja stöðu barna innflytjenda. Þar gegnir menntakerfið lykilhlutverki, einkum í íslenskunámi og móðurmálskennslu, sem er lykill innflytjenda að virkri þátttöku í samfélaginu. Skólar þurfa að gera foreldrum barna af erlendum uppruna kleift að taka þátt í foreldrasamstarfi skólanna og verður að þjónusta innflytjendur sérstaklega í heilbrigðiskerfinu.

Herra forseti. Þessi tillaga er löng og hún er ítarleg og í mörgum liðum og ég kemst ekki yfir að fara yfir allt saman á 15 mínútum. Tillagan er byggð á tillögu sem samþykkt var fyrir 11 árum síðan og unnin var í félagsmálaráðuneytinu og flutt af þáverandi félagsmálaráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur, en til viðbótar er brugðist við áhyggjuefnum og nýjum skýrslum og gagnrýni á það hvernig Íslendingar fara með barnasáttmálann. Undir tillöguna skrifa, ásamt þeirri sem hér stendur, allir þingmenn Samfylkingarinnar.