149. löggjafarþing — 11. fundur,  26. sept. 2018.

aðgerðaáætlun fyrir árin 2019--2022 til að styrkja stöðu barna og ungmenna.

13. mál
[15:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir einstaklega yfirgripsmikla og góða þingsályktunartillögu. Hluti af henni er einmitt þriðja valfrjálsa bókun barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem liggur líka fyrir þinginu sem sérstök þingsályktunartillaga, þannig að ef þessi tillaga nær ekki nógu langt, af því að hún er mjög fjölbreytt og gæti verið erfitt út af ýmsum hlutum að klára, hún fari ekki alveg í gegn en ég hvet að sjálfsögðu hæstv. velferðarnefnd að klára, hún klárar yfirleitt, þá getum við alla vega klárað þann hluta.

Ég kem einmitt til að hvetja hv. velferðarnefnd til að vinna í gegnum þessa tillögu og vil hvetja nefndir almennt til að klára mál sem vísað er til þeirra og afgreiða úr nefnd til 2. eða síðari umr. Ég hef orðið vitni að ýmsum nefndarskapaæfingum þar sem mál eru stöðvuð með ýmiss konar hætti til þess að komast hjá því að þurfa að afgreiða málin út úr nefnd. Það eru vinnubrögð sem mig langar til þess að hverfi.

Mig langaði til þess að eiga örstuttan orðastað við hv. þingmann og flutningsmann þessarar tillögu, einmitt af því að þessi tillaga er svona viðamikil og kemur væntanlega til með að krefjast mjög yfirgripsmikillar vinnu velferðarnefndar og margra og fjölbreyttra umsagna. Mig langar að ræða hvernig við, allir þingmenn, getum hjálpast að við að klára afgreiðslu mála en að við séum ekki sífellt í seinni hluta afgreiðslu mála í nefndum að kalla eftir nýjum og nýjum og nýjum umsögnum og heimsóknum o.s.frv., sem virðist eingöngu vera til þess að koma í veg fyrir að málið komist úr nefnd.